Sofnaði væntanlega undir stýri

Sennilegt er að ökumaður bifreiðar sem var ekið yfir á rangan vegarhelming hafi sofnað eða misst athygli við aksturinn af óþekktum ástæðum en bifreiðinni var ekið í veg fyrir aðra bifreið í Hvalfjarðargöngunum fyrir tveimur árum. Einn lést og nokkrir slösuðust alvarlega í slysinu.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa frá því 5. júní eða nákvæmlega tveimur árum eftir slysið.

Slysið varð um 700 metrum fyrir innan syðri munna ganganna. Ökumaður jeppa á suðurleið ók yfir á rangan vegarhelming í veg fyrir fólksbíl á norðurleið. Farþegi í framsæti fólksbifreiðarinnar lést í slysinu og ökumaðurinn slasaðist lífshættulega. Ökumaður og farþegar í jeppanum slösuðust mikið.

Í skýrslunni beinir nefndin því til veghaldara að kanna með möguleika á að breikka rifflur á milli akstursátta. Jafnframt beinir nefndin því til veghaldara að leita leiða til að auka vitund ökumanna á nauðsyn þess að viðhalda nægilegu bili milli ökutækja í göngunum.

Á myndskeiði úr eftirlitsmyndavélum úr göngunum má sjá hvar jeppanum var ekið beint áfram af beina vegkaflanum í stað þess að fylgja beygjunni til hægri. Bifreiðin fór þannig yfir óbrotna miðlínu yfir á rangan vegarhelming og lenti framan á bifreiðinni sem kom á móti.

Að mati nefndarinnar bendir aksturslag bílstjóra jeppans ekki til þess að um framúrakstur hafi verið að ræða. Miðað við hraða og akstursstefnu virðist sem jeppinn hefði hafnað utan í steinvegg ganganna ef ekki hefði komið til árekstrar við fólksbílinn.

Myndskeiðið sýnir einnig að ökumaður fólksbílsins hafði mjög lítinn tíma til að bregðast við, líklega innan við tvær sekúndur, og um sekúndu fyrir árekstur kviknuðu hemlaljós þeirrar bifreiðar. Ekki er unnt að greina að ökumaður jeppans hafi dregið úr hraða í aðdraganda slyssins eða reynt að sveigja aftur inn á sína akrein fyrir áreksturinn.

Fólksbíllinn snerist og kastaðist afturendi hennar yfir á öfugan vegarhelming í árekstrinum. Litlu mátti muna að bifreið sem ekið var skömmu á eftir jeppanum lenti einnig á Subaru-bifreiðinni en ökumaður hennar náði að stöðva bifreið sína í tæka tíð.

Samkvæmt myndskeiði var jeppanum ekið í röð bifreiða til suðurs og út frá myndbandi er áætlað að minna en 10 metra bil hafi verið á milli bifreiða. Lengra bil var á milli bifreiða á norðurleið.

Lágmarksfjarlægð milli ökutækja í sömu akstursátt í göngunum er 50 metrar og er það tilgreint með umferðarmerki beggja vegna ganganna. Ökumaður jeppans sagðist hafa verið vel úthvíldur við aksturinn og hafði ekið áleiðis til Reykjavíkur frá Ströndum en stoppað var í Borgarnesi í stutta stund. Farþegarnir tveir í bifreiðinni voru mögulega sofandi þegar slysið átti sér stað, samkvæmt framburði þeirra. Hvorki ökumaður né farþegar bifreiðarinnar gátu útskýrt tildrög slyssins og mundu ekki eftir slysinu sjálfu. Allir í bílunum tveimur voru í öryggisbeltum og niðurstöður áfengis- og lyfjaprófana á ökumönnum beggja bifreiða voru neikvæðar.

Rifflur í Hvalfjarðargöngunum eru um 10 cm breiðar þvert á akstursáttir á milli akreina í göngunum. Á öðrum stöðum á landinu þar sem rifflur hafa verið fræstar í malbik er breidd þeirra almennt á bilinu 20 til 35 cm þvert á akstursáttir. Munur er á titringi og hljóði sem berst inn í bifreiðir sem ekið er yfir rifflur í göngunum og rifflur sem eru á Vesturlandsvegi utan ganganna. Mjórri rifflur eins og þær sem eru í göngunum ná síður athygli ökumanns en breiðari rifflur, segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert