Sóttu villtan og örmagnaðan göngumann

Hálendisvaktin hefst á föstudag. Mynd úr safni.
Hálendisvaktin hefst á föstudag. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út í annað sinn síðdegis í dag vegna ferðamanns sem var í vandræðum á hálendinu. Björgunarsveitarfólkið hafði þá nýlega lokið útkalli vegna fólks sem óskaði eftir aðstoð á Fimmvörðuhálsi í nótt.

Um örmagnaðan göngumann var að ræða, en hann var villtur á Syðra-Fjallabaki á milli Hvanngils og Emstra. Mikil þoka var á svæðinu og sá maðurinn að einhverju leyti til fjalla en vissi ekki hvar hann væri fyrir utan það að vera á slóða.

Maðurinn var í farsímasambandi og átti þannig samskipti við björgunarsveitarfólk sem lagði af stað til hans. Vitað var af aðila á vegum Ferðafélags Íslands á svæðinu og var hann beðinn að keyra slóðann á því svæði sem talið var að maðurinn væri út frá farsímasendi. Sá fann manninn skömmu seinna og keyrði hann til móts við björgunarsveitarfólk sem flutti hann í Emstruskála og gaf honum heitt að borða og drekka.

Í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu er minnt á að hálendisvakt björgunarsveitanna hefjist nú á föstudag í 13. sinn. Hátt í 200 munu standa vaktina á þremur stöðum og stytta með því viðbragð og sinna forvörnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert