Var á leið með vistir til hestamanna

Hestamenn við Löngufjörur.
Hestamenn við Löngufjörur. Ljósmynd/Herdís K. Brynjólfsdóttir

Lokaskýrsla Rannsóknanefndar samgönguslysa um flugslysið við Löngufjörur á Snæfellsnesi þann 7. júní 2014 hefur nú verið gefin út.

Vélin, sem var fis af gerðinni Sky Ranger, missti hæð þegar henni var flogið inn á lokastefnu fyrir lendingu og brotlenti í fjöruborðinu. Meiðsl flugmannsins, sem var 57 ára þegar atvikið átti sér stað, voru töluverð og skemmdir á fisinu einnig. Flugmaðurinn hugðist fljúga með vistir til hestamanna við Löngufjörur þegar vélin brotlenti. Í skýrslunni kemur fram að hluti vistanna sem um borð voru í vélinni hafði verið fjarlægður úr flakinu þegar vettvangsrannsókn hófst. Hestamennirnir sem bjuggust við vistunum úr fluginu fjarlægðu flugmanninn úr flakinu og drógu það síðan upp fjöruna þar sem sjór var að fæða að. Þetta var gert með samþykki RNSA en ekki var gefið leyfi til að fjarlægja vistir úr vélinni en lög um rannsókn samgönguslysa kveða á um að ekkert megi hrófla við ummerkjum slysa án heimildar.

Þá er það mat RNSA í skýrslunni að athygli flugmannsins á lendingarstað hafi valdið því að beygjan sem vélin missti hæð sína í hafi verið krappari en aðrar beygjur og lítil flughæð hafi ekki veitt svigrúm til leiðréttingar með þeim afleiðingum að fisið skall í fjöruborðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert