Frakkar á Ingólfstorgi sáttir við sína menn

Frakkar tóku yfir Ingólfstorg í dag, þó að þar hafi …
Frakkar tóku yfir Ingólfstorg í dag, þó að þar hafi mátt sjá Króata á stangli. mbl.is/​Hari

„Ég hélt að leikurinn yrði auðveldari því við höfum reynslu af úrslitaleikjum,“ sagði George sem staddur var á Ingólfstorgi og fylgdist með Frökkum landa heimsmeistaratitli í knattspyrnu. George kemur frá París í Frakklandi en er búsettur á Íslandi. „Takk, takk fyrir,“ sagði hann á íslensku þegar blaðamaður óskaði honum til hamingju.

Frakki, hálfur Frakki og einn fjórði Frakki á Ingólfstorgi.
Frakki, hálfur Frakki og einn fjórði Frakki á Ingólfstorgi. mbl.is/Þorgerður

„Ég hélt að þetta yrði auðveldara fyrir okkur. En þegar staðan var orðin 2:1 vissi ég að þetta var búið.“ George var staddur á Ingólfstorginu með Loga sem er hálfur Frakki og syni hans. Þeir hlógu þegar blaðamaður spurði út í seinna mark Króata, þar sem Hugo Lloris markverði Frakka urðu á hrapalleg mistök.

„Skítur skeður,“ sagði George. „Þetta var klaufalegt,“ bætti Logi við. Þeir félagarnir ætluðu að fagna með kampavíni, hvítvíni og rauðvíni í kvöld.

Damien og vinir hans voru vel skreyttir.
Damien og vinir hans voru vel skreyttir. mbl.is/Þorgerður

„Takk, þetta er frábært,“ sagði Damien sem einnig fagnaði sigri Frakka með vinum sínum á Ingólfstorgi. Þeir voru vel skreyttir frönsku fánalitunum. Damien fannst seinni hluti leiksins betri hjá sínum mönnum.

„Það var leiðinlegt, en markaskorarinn hafði þegar gert sjálfsmark svo þetta var sanngjarnt,“ sagði hann um mark Króatans Mario Mandžukić. Damien og félögum hans var sama þótt þeir þyrftu að horfa á leikinn í rigningu. „Við vissum þetta áður en við komum. Þetta er hluti af landinu.“

Þeir ætla að fagna á bar í kvöld, en þó ekki of mikið því á morgun ætla þeir að ganga á fjöll. Þeir framlengdu dvöl sína í Reykjavík um tvo daga vegna leiksins.

Frönsku ferðamönnunum var sama þótt á þá rigndi yfir leiknum.
Frönsku ferðamönnunum var sama þótt á þá rigndi yfir leiknum. mbl.is/Þorgerður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert