Með fleiri hæðarmetra í farteskinu nú

Rannveig kom í mark á besta tíma sem íslensk kona …
Rannveig kom í mark á besta tíma sem íslensk kona hefur náð í Laugavegshlaupinu. Ljósmynd/Facebook-síða hlaupsins

„Ég er búin að vera að hlaupa markvisst í um 20 ár og keppa aðallega í götuhlaupum. Ég hef alltaf aðeins tekið utanvegahlaup með en hef verið að gera meira af því undanfarin tvö til fjögur ár,“ segir Rannveig Oddsdóttir sem var fyrst kvenna í mark í Laugavegshlaupinu sem haldið var í gær. Rannveig hljóp á besta tíma íslenskra kvenna frá upphafi, 5:16:11 á þessari 55 km löngu leið.

Rannveig tók þátt í hlaupinu í annað sinn í gær, en ellefu ár eru síðan hún þreytti frumraun sína í Laugavegshlaupinu. „Mig er búið að langa aftur síðan en það hefur ýmist ekki passað inn í hlaupaprógrammið eða fjölskylduprógrammið, eða ég hef verið meidd.“

„Ég bætti mig um 20 mínútur. Núna þegar ég var að undirbúa mig fyrir þetta hlaup þá var ég að taka æfingar líkari þessu hlaupi heldur en ég var að gera 2007. Þá var ég meira að æfa á malbiki. Ég var með fleiri hæðarmetra í fótunum núna.“

Kjöraðstæður til fjallahlaupa í kringum Akureyri

Rannveig er búsett á Akureyri og segir þar vera kjöraðstæður fyrir fjalla- og utanvegahlaup. Hún hóf eiginlegan undirbúning fyrir Laugavegshlaupið í maí en annars segist hún alltaf vera að hlaupa. „Við erum með alveg fyrirtaksæfingaaðstöðu hérna, það er svo stutt í fjöllin og brekkurnar. Við erum að fara heilmikið upp í Vaðlaheiðina, og eins upp í Súlur og Hlíðarfjall.“

Æfingafélagarnir Rannveig og Þorbergur.
Æfingafélagarnir Rannveig og Þorbergur. Ljósmynd/marathon.is

„Það hefur verið vaxandi áhugi hérna á utanvega- og fjallahlaupum. Það er góður hópur hérna sem hefur verið að æfa,“ segir Rannveig, en Þorbergur Ingi Jónsson sem sigraði í karlaflokki, og Anna Berglind Pálmadóttir sem var önnur í kvennaflokki, eru meðal æfingafélaga Rannveigar. „Við erum að verða stórveldi hérna í fjallahlaupum.“

Aðstæður í Laugavegshlaupinu í ár voru ágætar að sögn Rannveigar, en veðurspáin var ekkert sérstök dagana fyrir hlaup og var hún því búin að búa sig undir að fara af stað í rigningu og vera með mótvind meirihluta leiðarinnar. „En það slapp alveg, það var þurrt á okkur, ágætishlaupaveður og þægilegt hitastig,“ segir hún, þrátt fyrir þoku á fyrsta kaflanum og snjó í kringum Hrafntinnusker.

Planar hlaupin passlega langt fram í tímann

Rannveig áætlar að það taki nokkra daga að mýkja sig upp en segist hafa komið ágætlega undan hlaupinu. „Ég tek því rólega í eina til tvær vikur.“

Næst á dagskrá hjá Rannveigu er Reykjavíkurmaraþonið þar sem hún ætlar að taka hálft eða heilt maraþon. „Annað er ég ekki alveg búin að ákveða, ég hef átt svolítið við meiðsli undanfarin ár svo ég plana mig passlega langt fram í tímann. En það er nóg framboð af spennandi hlaupum, það vantar ekkert upp á það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert