Salerni karla og kvenna skuli aðgreind

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Áform mannréttinda- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar um að koma upp ókyngreindum salernum fyrir starfsfólk í stjórnsýsluhúsum borgarinnar brjóta gegn reglugerð um húsnæði vinnustaða. Yfirlæknir Vinnueftirlitsins, Kristinn Tómasson, segir í samtali við RÚV að ekki verði hægt að hefja framkvæmdirnar nema reglunum verði breytt.

Mannréttinda- og lýðræðisráð borgarinnar samþykkti einróma á sínum fyrsta fundi að salernin yrðu gerð ókyngreind frá og með haustinu. Markmið samþykktarinnar var að draga úr fordómum og skapa betra aðgengi allra að samfélaginu í sínu víðustu mynd.

„Ég geri ráð fyrir því að þau þurfi eins og aðrir að fylgja reglum í landinu, þau þurfi alla vega að fresta framkvæmdinni þar til reglum verði breytt í samræmi við þessar hugmyndir þeirra um salerni sem ekki eru kyngreind fyrir karla og konur,“ segir Kristinn í samtali við RÚV.

Áætlanir borgarinnar stangast á við reglugerð um húsnæði vinnustaða frá árinu 1995. Í 22. grein reglugerðarinnar segir að á vinnustöðum þar sem starfa fleiri en fimm karlar og fimm konur skuli salerni og snyrting fyrir hvort kyn aðgreind. Kristinn Tómasson segir málið til skoðunar hjá eftirlitinu og að brugðist verði við með formlegum hætti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert