1.300 tonn af búnaði fylgja Guns N'Roses

Tónleikar Guns N' Roses verða þeir stærstu í Íslandssögunni, en …
Tónleikar Guns N' Roses verða þeir stærstu í Íslandssögunni, en amerísku sveitinni fylgja um 1.300 tonn af búnaði. AFP

Tónleikar rokkhljómsveitarinnar Guns N' Roses, sem fram fara á Laugardalsvelli 24. júlí næstkomandi, verða stærstu tónleikar Íslandssögunnar, hvort sem um er að ræða fólksfjölda á tónleikunum sjálfum eða umfang verkefnisins í heild sinni. 

Gríðarlega mikill búnaður verður fluttur til landsins vegna tónleikanna og er samanlögð þyngd búnaðarins um 1.300 tonn. Alls verður 21 fjörutíu feta gámur fluttur til landsins, auk þess sem trailer-vagnarnir, sem fluttir eru í sjófrakt, eru 16 talsins. Þá verða 100 tonn af búnaði flutt með flugfrakt.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá TVG-Zimsen, sem sér um að flytja búnaðinn til landsins. Viðburðafyrirtækið Solstice Productions stendur að tónleikunum en TVG-Zimsen hefur átt í samstarfi við fyrirtækið í tengslum við Secret Solstice-tónlistarhátíðina undanfarin tvö ár.

„Það er mikið gleðiefni að eiga áframhaldandi samstarf við TVG-Zimsen um flutning á búnaði fyrir þessa stórtónleika. Tímaáætlun og skipulag eru lykilatriði í viðburðaflutningum sem þessum og sérfræðingar þeirra hafa ávallt staðið sig frábærlega varðandi skipulagningu og framkvæmd flutninga,“ er haft eftir Friðriki Ólafssyni, framkvæmdastjóra Solstice, í fréttatilkynningu.

Umtalsvert stærri en Rammstein-tónleikarnir

Sviðið sem byggt verður fyrir tónleikana á Laugardalsvelli verður 65 metrar á breidd og sérstakt gólf verður verður lagt yfir grasvöllinn til þess að vernda undirlagið á vellinum. Þá verður ekkert til sparað í ljósabúnaði og hljóði, auk þess sem fluttar verða inn eldvörpur og reyksprengjur.

„Til að undirstrika umfang tónleika Guns N' Roses má geta þess að TVG-Zimsen flutti á síðasta ári búnað fyrir tónleika Rammstein hér á landi, sem fram til þessa hafa verið stærstu tónleikar sem hér hafa verið haldnir. Var þá um að ræða sautján 40 feta gáma auk nokkurra flugsendinga svo munurinn er umtalsverður. Tónleikar Guns N' Roses verða því sannarlega stærstu tónleikar sem farið hafa fram á Íslandi,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar frá TVG-Zimsen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert