Göngufólk varð strand á Ströndum

Fólkið komst ekki leiðar sinnar yfir Meyjará á Ströndum og …
Fólkið komst ekki leiðar sinnar yfir Meyjará á Ströndum og var ferjað til Dranga. Kort/Map.is

Neyðarkall barst frá átján manna gönguhópi í gærkvöldi eftir að hann hafði lent í hrakningum á leið í Meyjardal á Ströndum. Mjög hafði vaxið í Meyjará sem fólkið hugðist fara yfir og komst það ekki leiðar sinnar.

Björgunarsveitarmenn frá Norðurfirði, Hólmavík, Drangsnesi og Skagaströnd tóku þátt í aðgerðum og farið var á vettvang á þremur bátum, m.a. á ferðaþjónustubáti frá Norðurfirði í Árneshreppi. Útkallið barst seint í gærkvöldi og voru björgunarmenn komnir að fólkinu, sem var þá orðið nokkuð kalt, rúmlega 1 í nótt. Þá hafði fólkinu tekist að kveikja varðeld til að halda á sér hita. Var fólkið komið að Dröngum um hálf fimm í nótt.

Var það ferjað sjóleiðina að bænum Dröngum en þar er aðeins búið hluta úr ári. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Ísafirði var þá búið að hita upp húsið. Þaðan ætlaði hópurinn svo að halda göngu sinni áfram suður á bóginn í dag. 

Miklir vatnavextir hafa verið í ám og lækjum á svæðinu síðustu daga. Meyjaráin hafði þannig vaxið mikið og treysti göngufólkið, sem er íslenskt, sér ekki yfir hana. Með því að vera ferjað á báti til Dranga slapp fólkið einnig við að fara yfir Húsadalsá sem einnig er nú vatnsmikil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert