Greiddu sektina og báðust afsökunar

Utanvegaakstur.
Utanvegaakstur. Ljósmynd/Páll Gíslason

Er­lendu ferðamennirnir sem gerðust sekir um ólöglegan utanvegaakstur í gærkvöldi mættu á lögreglustöðina á Selfossi nú fyrir stuttu og greiddu sekt sem þeim var gerð vegna þeirra náttúruspjalla sem aksturinn olli. Mennirnir, sem voru tveir að verki, eru franskir ríkisborgarar. 

„Hvor ökumaður borgaði 200 þúsund og þar með er málinu lokið,“ sagði Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Aðspurður hvort mennirnir hefðu verið ósáttir með málalokin neitaði Elís því.

„Þeir töldu sig ekki vera að fremja alvarlegt brot með því að keyra þarna utanvegar. Þeir viðurkenndu þó að hafa gert það, greiddu sektina, báðust afsökunar og lofuðu að gera þetta aldrei aftur,“ bætti Elís við.

Utanvegaakstur.
Utanvegaakstur. Ljósmynd/Páll Gíslason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert