Kjaradeila ljósmæðra „mikið áhyggjuefni“

Alma D. Möller landlæknir segir stöðuna í kjaradeilu ríkis og …
Alma D. Möller landlæknir segir stöðuna í kjaradeilu ríkis og ljósmæðra alvarlega og mikið áhyggjuefni. mbl.is/Eggert

Landlæknir, Alma D. Möller, lýsir alvarlegum áhyggjum vegna stöðunnar í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins í tilkynningu til fjölmiðla. Embættið segir stjórnendur Landspítala telja sig geta tryggt öryggi sjúklinga með herkjum þar sem óljóst er hvenær næsta álagstímabil starfsfólks verði. Þá hvetur landlæknir til þess að samningsaðilar leysi deiluna sem fyrst.

Landlæknir og starfsmenn embættisins hafa setið stöðufundi á kvennadeild Landspítala og haldið beinu sambandi við stjórnendur og starfsfólk, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Landlæknir segir jafnframt að vel hafi tekist að vinna úr stöðunni til þessa og telur embættið að það hafi gengið vonum framar að tryggja að þjónusta skerðist sem minnst og að öryggi skjólstæðinga sé tryggt. Þá er vönduð og ítarleg aðgerðaráætlun Landspítalans talin hafa borið árangur að sögn landlæknis, ásamt samstarfi milli deilda og aðila utan spítalans.

„Það er mat Embættis landlæknis að ekki megi mikið út af bregða til að hætta skapist. Ekki er vitað hvenær næsti álagstoppur kemur - en slíkir toppar koma. Aldrei er hægt að sjá alla hluti fyrir, það er hið óvænta sem er mesta áskorunin fyrir starfsfólkið í heilbrigðiskerfinu,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert