Þjónustukort Byggðastofnunar kynnt

Þjónustukort Byggðastofnunar sýnir staðsetningu heilbrigðisþjónustu, lögreglu, sýslumanna og menntastofnana.
Þjónustukort Byggðastofnunar sýnir staðsetningu heilbrigðisþjónustu, lögreglu, sýslumanna og menntastofnana. Mynd/Samgöngu- og sveitarsjórnarráðuneytið.

Vefsjáin thjonustukort.is var opnuð í dag og er það fyrsti áfangi í þróun þjónustukortsins sem nær yfir þjónustu á sviði löggæslu-, fræðslu- og heilbrigðismála. Í fréttatilkynningu frá sumarfundi ríkisstjórnarinnar kemur fram að ríkisstjórnin hefur samþykkt að tryggja frekari öflun gagna og samræmingu til þess að haldið verður áfram með verkefnið.

Tilgangur þjónustukortsins er að bæta aðgengi að upplýsingum um þjónustu hins opinbera og einkaaðila. Ábyrgð á framkvæmd verkefnisins hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurði Inga Jóhanssyni, og fól ráðaherra Byggðastofnun að vinna að gerð kortsins í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Áætlaður kostnaður verkefnisins er allt að 20 milljónir króna og standa vonir til að gerð vefsjárinnar verði lokið fyrir lok þessa árs.

Verkefnið víðtækara en fyrst var talið

Fram kemur í tilkynningunni að við vinnslu kortsins hafi komið í ljós að afla þyrfti upplýsinga sem eru ekki á forræði Byggðastofnunar. Þá hefur verið skipaður starfshópur á vegum forsætisráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, velferðarráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem mun fylgja verkefninu eftir.

Ástæða þess að verkefnið hafi ekki verið fullklárað áður en vefsjáin var opnuð er sögð vera til þess að gefa almenningi, fyrirtækjum og stjórnvöldum færi á að koma á framfæri ábendingum og hugmyndum til Byggðastofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert