Lög á yfirvinnubann kæmu ekki á óvart

Ljósmæður og stuðningsfólk á Austurvelli.
Ljósmæður og stuðningsfólk á Austurvelli. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, segist ekki hafa áhyggjur af því að lög verði sett á yfirvinnubann ljósmæðra, sem taka á gildi aðfaranótt miðvikudags. Slíkt kæmi þó ekki á óvart með hliðsjón af sögunni.

„Það væri hins vegar skammgóður vermir,“ segir Katrín og ekki til annars fallið fyrir ríkið en að ýta vandanum á undan sér. Hún segir að því myndu fylgja fleiri uppsagnir. „Ég held líka að þá myndi fjölga í þeim hópi ljósmæðra [sem þegar hafa sagt upp] sem snúi ekki til baka.“

Síðasti fundur samninganefnda ljósmæðra og ríkisins var á miðvikudag og bar hann engan sýnilegan árangur. Enn hefur ekki verið boðað til nýs fundar.

Ljósmæður funda í kvöld kl. 8 í húsi BHM í Borgartúni. Farið verður yfir stöðuna í samningaviðræðunum og hvaða reglur gilda í verkfalli. Ljóst er að yfirvinnubannið mun hafa nokkur áhrif á starfsemi fæðingardeilda. „Það er unnin talsverð yfirvinna, sérstaklega frá síðustu mánaðamótum,“ segir Katrín en uppsagnir tólf ljósmæðra tóku þá gildi.

Því hefur verið velt upp hvort ríkisstjórnin hyggist setja lög á yfirvinnubann ljósmæðra. Slíkt bann var til dæmis lagt á flugumferðarstjóra sumarið 2016. Þá var Alþingi kallað saman úr sumarfríi til þess að samþykkja lög þess efnis.

Þegar Alþingi gerir hlé á störfum sínum að vori er fundum þess frestað með þingsályktun. „Eigi að rjúfa þingfrestun þarf forseti Íslands að gera það að tillögu forsætisráðherra með svokölluðu forsetabréfi,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, í samtali við mbl.is. Ekkert er í lögum um það með hve löngum fyrirvara er boðað til fundar, en Helgi segir miðað við að sólarhringsfyrirvari sé sanngjarnt lágmark enda verði að tryggja að allir þingmenn, sem eru á landinu, komist til fundar í tæka tíð.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert