Innsæið ekki öllum gefið

Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson fagnar sigrinum í tippleiknum ásamt franska landsliðinu.
Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson fagnar sigrinum í tippleiknum ásamt franska landsliðinu. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var náttúrlega samblanda af heppni og einhverju smá innsæi. Þetta er ekki öllum gefið, svona innsæi,“ segir Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson á Sauðárkróki, sem stóð uppi sem sigurvegari í HM-tippleik fjölmiðla Árvakurs. Að launum hlýtur Guðbrandur hægindastól frá ILVA, af gerðinni Stressless.

Guðbrandur Ægir er ánægður en hógvær eftir sigurinn. Hann segist helst hafa eitt ráð fyrir þá sem taka þátt í tipp-leikjum sem þessum og það er að treysta fyrstu tilfinningu sinni.

„Oft fékk ég bakþanka og fór að breyta spánni, en svo fór alltaf aftur til baka í það fyrsta sem hafði komið og það dugði nógu vel allavega,“ segir Guðbrandur.

Hann var ofarlega í tippleiknum allt frá því að riðlakeppninnni lauk.

„Fljótlega eftir riðlakeppnina var ég kominn á toppinn og svo datt ég niður, svo fór ég aftur á toppinn og datt svo aftur niður, alveg niður í tuttugasta og eitthvað sæti, en svo bara sigldi ég hægt og örugglega sigrinum í höfn. Þetta var bara orðið öruggt þarna í restina, daginn fyrir úrslitaleikinn var þetta komið.“

Guðbrandur segist ætla að fá hægindastólinn sendan til sín norður í Skagafjörð og njóta þess að horfa á boltann í honum. Hann segir starfsfólk ILVA hafa verið liðlegt og boðið inneign að andvirði stólsins, en hann er hrifinn af hönnuninni.

„Það er ekki verra að horfa á boltann í almennilegum stól,“ segir Guðbrandur.

Samsung-símar fyrir rétt úrslit í leikjum Íslands

K100, Morgunblaðið og mbl.is stóðu að HM-tippleiknum í sameiningu. Andri Stanley Sigurðsson markaðsfulltrúi hjá Árvakri segir að yfir þúsund þátttakendur hafi verið virkir í leiknum á meðan að heimsmeistaramótið í Rússlandi stóð yfir.

Auk aðalvinningsins frá ILVA voru vegleg aukaverðlaun gefin fyrir hárrétt úrslit í leikjum Íslands á mótinu.

Tæknivörur, umboðsaðili Samsung á Íslandi, gáfu þremur heppnum þátttakendum Samsung Galaxy S9+ farsíma, en dregið var úr potti þeirra sem spáðu rétt fyrir um markatöluna í leikjum Íslands.

„170 manns voru með rétt úrslit í fyrsta leiknum gegn Argentínu,“ segir Andri Stanley, en færri spáðu fyrir um rétt úrslit í leikjum Íslands gegn Nígeríu og Króatíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert