Spánarfarar komu heim fyrir tryggingafé

Ferðamálastofa notaði tryggingafé til þess að greiða fyrir beint flug …
Ferðamálastofa notaði tryggingafé til þess að greiða fyrir beint flug hópsins aftur til Egilsstaða. mbl.is/Sigurður Bogi

Ferðaskrifstofa Austurlands, FA Travel, fór í rekstrarstöðvun í apríl, en á sama tíma var hópur á vegum fyrirtækisins staddur í Alicante á Spáni. Virkja þurfti lögbundnar tryggingar til þess að koma hluta hópsins heim til Íslands. Ekki hefur verið nauðsynlegt að grípa til viðlíka aðgerða síðan Samvinnuferðir-Landsýn fóru í þrot árið 2001.

Austurfrétt greinir frá þessu í dag, en Helena Þ. Karlsdóttir, forstöðumaður á stjórnsýslu- og umhverfissviði Ferðamálastofu, staðfesti þetta við mbl.is.

Grípa þurfti til trygginganna þegar Ferðamálastofa felldi niður ferðaskrifstofuleyfi FA Travel í ljósi rekstrarstöðvunar í apríl, en þá var hópur sem hafði farið með beinu flugi frá Egilsstöðum til Alicante staddur ytra.

Í lögum um skipan ferðamála segir að ferðaskrifstofa skuli hafa tryggingu fyrir endurgreiðslu fjár sem viðskiptavinur hefur greitt vegna alferðar og til heimflutnings viðskiptavinar úr alferð, komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu. Tryggingar sem þessar geta verið fé sem lagt er inn í banka í nafni Ferðamálastofu, bankaábyrgð eða önnur trygging sem Ferðamálastofa metur sambærilega.

Tryggingafé notað til að greiða fyrir heimflugið

Helena segir að Ferðamálastofa hafi notað hluta framlagðrar tryggingar til þess að taka yfir leiguflugið aftur til Egilsstaða, en reikningurinn fyrir því hafði ekki verið greiddur. Því komst hópurinn heim, en flestir farþeganna eru búsettir á Austurlandi.

Ef Ferðamálastofa hefði ekki getað notað trygginguna til þess að greiða fyrir flugið aftur til Egilsstaða hefðu sólþyrstu Austfirðingarnir þurft að kaupa sér gistingu og verða sér úti um far aftur heim upp á eigin spýtur.

Það segir Helena að hefði reynst mun dýrara, en hún var ekki með upplýsingar um hversu há upphæð af tryggingafénu fór í að koma hópnum heim.

Eftir atvikið sendi Ferðamálastofa út áskorun til þeirra farþega sem teldu sig eiga inni kröfu á FA Travel um að leggja fram kröfulýsingar í tryggingaféð. Fram kemur á vef Austurfréttar að frestur til að skila inn kröfum rann út í lok júní. Málið er enn í vinnslu.

Verður vonandi ekki algengt

„Ef það koma kröfur og þær eru samþykktar, þá eru þær greiddar af tryggingunni,“ segir Helena, sem segir málið merkilegt, enda ekki oft sem þetta hefur komið upp.

„Það hefur ekkert reynt mikið á þetta, hingað til, en svo veit maður ekkert hvað gerist,“ segir Helena sem vonast þó til að tilvik sem þessi verði ekki algeng.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert