Kostnaður við aðstoðarmenn 427 milljónir

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur nýtur aðstoðar 22 aðstoðarmanna, en kostnaður vegna …
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur nýtur aðstoðar 22 aðstoðarmanna, en kostnaður vegna þeirra verður líklega 427 milljónir á þessu ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áætlaður heildarlaunakostnaður ríkisins vegna aðstoðarmanna ráðherra og ríkisstjórnar er 427 milljónir á þessu ári, en ráðherrar og ríkisstjórnin eru með samtals 22 aðstoðarmenn. Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins.

Fram kemur að samtals hafi 24 aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnar verið ráðnir án auglýsingar síðan ríkisstjórnin tók til starfa og séu þeir í dag 22. Heimilt er samkvæmt lögum frá 2011 um stjórnarráð Íslands að ráða samtals 25 slíka aðstoðarmenn.

Sigmundur spyr í fyrirspurn sinni hvort aðstoðarmennirnir hafi áður verið fleiri. Kemur fram í svari forsætisráðherra að þeir hafi áður flestir verið 20 árið 2017.

Spyr Sigmundur jafnframt hvernig forsætisráðherra hyggist, í ljósi yfirlýstra áforma um að efla Alþingi, jafna aðstöðumun ráðherra annars vegar og stjórnarandstöðuþingmanna hins vegar. Svarar ráðherra því til að löggjafar-, fjárstjórnunar- og eftirlitshlutverk Alþingis verði styrkt með því að auka stuðning við nefndarstarf og þingflokka.Þá hafi framlög til stjórnmálasamtaka sem eigi fulltrúa á Alþingi verið hækkuð.

Þá segir forsætisráðherra að áform hafi þegar verið kynnt í forsætisnefnd Alþingis og formönnum þingflokka um að vinna væri að hefjast við skipulagningu á nýju kerfi aðstoðarmanna fyrir þingmenn og þingflokka, en sú vinna sé í gangi hjá Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert