Meðalflutningstími sjúklinga 111 mínútur

Samtals var farið í 865 sjúkraflug á síðasta ári. Flutningstíminn …
Samtals var farið í 865 sjúkraflug á síðasta ári. Flutningstíminn með flugvélinni var um 37% af heildarflutningstímanum. mbl.is/RAX

Meðalflutningstími sjúklinga sem fóru með sjúkraflugi á síðasta ári var 111 mínútur, en þá er horft til heildarflutnings frá því þar sem sjúklingur er sóttur og fluttur í flug, svo með flugi og að lokum frá flugvelli að sjúkrastofnun. Lengri tími fór í að flytja sjúklinga að flugvél en flugið sjálft. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata.

Miðað er við gögn Neyðarlínunnar, en aðeins var hægt að vinna úr upplýsingum um 273 sjúkraflutninga af þeim 865 sem áttu sér stað á síðasta ári. Er ástæðan sú að ekki lágu fyrir nægilega traustar upplýsingar um alla flutningana.

Í þessum 273 sjúkraflutningum var meðalflutningstími frá upphafsstofnun til áfangastofnunar 111 mínútur sem skiptast þannig að meðaltími í sjúkrabíl að flugvelli var 55 mínútur, meðalflugtími 41 mínúta og meðaltími í bíl frá flugvelli að áfangastað 15 mínútur.

Það þýðir að flutningur að flugvelli var rétt tæplega 50% af ferðatímanum, flugtíminn var 37% og rúmlega 13% flutningur frá flugvelli að sjúkrastofnun.

Stysti flutningstími var 42 mínútur og sá lengsti 323 mínútur en í því tilfelli þurfti að bíða lengi eftir sjúklingi á upphafsflugvelli þar sem illa gekk að gera ástand sjúklings nægilega stöðugt til flutnings, að því er fram kemur í svari ráðherra.

Í svarinu eru einnig upplýsingar um fjölda sjúkraflutninga á landinu í fyrra, flokkað eftir því hvort sjúklingur var fluttur með sjúkrabifreið, flugvél eða þyrlu. Sjúkrabifreið var notuð í langflestum tilfellum, eða samtals í 46.460 skipti. Nemur það tæplega 98% heildarfjölda sjúkraflutninga. Sjúkraflug var notað í 863 skipti, eða 1,8% og þyrlan var notuð 130 sinnum, eða í 0,3% tilfella.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert