Styrkveitingin afturhvarf til fortíðar

Geðþótti stjórnmálamanna á ekki að ráða því hvaða rit koma …
Geðþótti stjórnmálamanna á ekki að ráða því hvaða rit koma út á Íslandi, né hvaða fyrirtækjum er hyglað á sviði bókaútgáfu, að mati greinarhöfunda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Átta íslenskir bókaútgefendur gagnrýna styrki sem forsætisnefnd Alþingis, skipuð fulltrúum allra flokka, hefur lagt til að Alþingi veiti Hinu íslenska bókmenntafélagi til útgáfu tveggja rita. Þetta gera bókaútgefendur í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Segja höfundar greinarinnar að þeir hafi ekkert á móti því að þingið hvetji til metnaðarfullra útgáfuverkefna, en þá verði líka að tryggja jafnræði hvað varðar aðkomu útgefenda og leggja síðan faglegt mat á þær tillögur sem berist.

„Það er meira að segja til opinbert apparat sem annast slíkar styrkveitingar, Miðstöð íslenskra bókmennta,“ segja höfundar greinarinnar og nefna að sú upphæð sem Alþingi hyggst veita Hinu íslenska bókmenntafélagi til útgáfu tveggja rita, 25-30 milljónir króna, sé svipuð og nánast allir styrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru á síðasta ári, en þeir styrkir hafi þó dreifst yfir á sjötta tug verka.

Höfundarnir segja styrki Alþingis nú vera afturhvarf til fortíðar, er geðþótti stjórnmálamanna réð því hvaða rit komu út á Íslandi og þykir þeim „með ólíkindum að þingheimur skuli hafa samþykkt þetta einum rómi, enda eiga menn á þeim bæ að vita betur.“

Því skal haldið til haga að í greininni segjast höfundar þó ekki efast um að útgáfufyrirtækið sem nýtur þessarar „óvæntu rausnar Alþingis“ muni nýta fjármunina til góðra verka.

Samkvæmt dagskrá Alþingis verður þingsályktunartillagan tekin til afgreiðslu síðar í dag og spurning er hvort aðfinnslur bókaútgefenda verði til þess að umræður skapist í þingsal um tillögu forsætisnefndar.

Áskrifendur Morgunblaðsins geta lesið greinina í heild sinni hér

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert