Verðandi móðir náði ekki inn á LSH

Erna Dís segir verðandi mæður veigra sér við því að …
Erna Dís segir verðandi mæður veigra sér við því að leita sér aðstoðar á fæðingardeild af ótta við að trufla. Ljósmynd/Aðsend

Erna Dís Schweitz Eriksdóttir, sem gengin er nærri fulla meðgöngu með sitt fyrsta barn, segist upplifa að ástandið sé orðið mjög slæmt á Landspítala. Hún skrifar á samstöðuhópinn „Mæður og feður standa með ljósmæðrum“ á Facebook að hún hafi reynt að hringja í tvígang á fæðingardeild Landspítalans nú í morgun í leit að aðstoð en í bæði skiptin hafi hringt út.

Hún segist í samtali við mbl.is ekki vera sú eina af verðandi mæðrum sem upplifir kvíða vegna kjaradeilu ljósmæðra. Þær veigri sér við því að leita aðstoðar á fæðingardeild af ótta við að valda enn frekara álag. Jafnvel hafi verið mælst til þess við einhverjar verðandi mæður á síðustu dögum að þær reyni að fara ekki af stað í fæðingu því svo mikið sé að gera.  

„Þetta er staðan. Ég hringdi tvisvar í morgun til þess að reyna að ná í gegn og fá ráðleggingar af því að ég er komin þetta langt og þetta er fyrsta barn hjá mér. En það er brjálað að gera hjá þeim greinilega,“ segir Erna Dís. 

Verðandi mæður í kvíðakasti

„Fyrst fékk ég samband við Mæðravernd og þaðan var mér gefið samband beint upp á fæðingardeild. Þar hringdi út og svo hringdi ég aftur beint á fæðingardeild og þá hringdi aftur út. Fyrir okkur sem erum að eiga núna, komnar á tíma, við erum allar í kvíðakasti yfir þessu í bumbuhópnum. Þetta er ekki gott þegar maður er kasóléttur, hvað þá í fyrsta skipti,“ segir Erna Dís. Þá sé búið að fresta gangsetningum í einhverjum tilvikum. 

Erna Dís á von á sínu fyrsta barni á allra …
Erna Dís á von á sínu fyrsta barni á allra næstu dögum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta hefur ekki heldur góð áhrif á heilsuna okkar. Við erum allar með kvíðahnút í maganum og erum á þessum lokametrum sem eru ekkert sérstaklega glæsilegir eða skemmtilegir. Þetta er bara orðið ástand,“ segir Erna Dís. 

Hún segir verðandi mæður halda niðri í sér andanum í hvert sinn sem ljósmæður funda við ríkið í þeirri von að samningar náist. Þá hafi deilan markað alla hennar meðgöngu. 

„Við lentum í því á sunnudaginn að það voru ekki hreyfingar [í kviðnum]. Ég veigraði mér við því að hringja upp eftir á fæðingardeildina, þar til maðurinn minn skipaði mér að hringja, af því að ég var svo hrædd um að trufla,“ segir Erna Dís. Hún hafi þó mætt góðu viðmóti þegar hún lét til leiðast og fór fæðingardeildina. „Þær vilja allt fyrir mann gera. Þær eru bara settar í slæma stöðu.“

Færsla Ernu Dísar á samstöðuhópnum „Mæður og feður standa með …
Færsla Ernu Dísar á samstöðuhópnum „Mæður og feður standa með ljósmæðrum“ á Facebook. Skjáskot,Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert