Íslendingar forðist að elta Breta

Allyson Pollock hefur verið ötul í baráttunni gegn einkavæðingu í …
Allyson Pollock hefur verið ötul í baráttunni gegn einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu til áratuga. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það er ekkert land í heiminum sem veitir alhliða heilbrigðisþjónustu með markaðsvæddu kerfi,“ segir Allyson Pollock, læknir og prófessor. Hún er stödd hér á landi vegna ráðstefnu sem Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, hélt um heilbrigðismál í Norræna húsinu á þriðjudag.

Pollock hefur verið ötul í baráttunni gegn einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu til áratuga, en hún segir að heilsugæslan sé grunnstoð velferðarsamfélagsins. Að hennar mati er heilbrigðiskerfið frábrugðið öðrum kerfum að því leyti að þar verði gjá milli hagsmuna sjúklinga og lækna á einkareknum sjúkrahúsum.

„Þeirra starf er að selja fólki lyfin sín og láta fólk girnast þau, frekar en að koma þeim lyfjum að sjúklingunum, sem þeir þurfa,“ segir Allyson Pollock. Þarna á milli verði að gera skýran greinarmun, en hann sé því miður að afmást.

Sjúklinga skorti jafnan sérfræðiþekkingu til að velja og hafna þjónustu sem þeim býðst, líkt of þeir geta gert á öðrum sviðum. Þetta leiðir óþarfra meðferða og lyfjanotkunar innan einkarekna geirans og skýri hvers vegna heilbrigðisþjónusta innan Bandaríkjanna er jafndýr og raun ber vitni.

Bandaríkin víti til varnaðar

Meðal þess sem Pollock nefnir máli sínu til stuðnings eru svokölluð viðskiptagjöld, sem innihalda gjöld fyrir dýra lögfræðiþjónustu, innheimtu, almannatengsl og auglýsingar, að ógleymdum hagnaði sem einkarekin fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu þurfi að skila.

„Hugmyndin um útvistun opinberrar heilbrigðisþjónustu til fyrirtækja byggir á innihaldslausum loforðum, ef þú spyrð mig,“ segir hún. Hagræðið af slíku eigi ekki við rök að styðjast. „Ef þau hefðu almannahagsmuni að leiðarljósi væru þau í leit að staðreyndum.“

Í opinberu kerfi líkt og NHS sé um 6% af heilbrigðisútgjöldum stjórnsýslukostnaður. Í Bandaríkjunum sé sama hlutfall 30-35%. „Þarna er fé sem ætti að fara í þjónustu við sjúklinga.“

NHS varð sjötíu ára fyrr í mánuðinum. Af því tilefni …
NHS varð sjötíu ára fyrr í mánuðinum. Af því tilefni var boðað til kröfugöngu í miðborg Lundúna þar sem göngumenn kölluðu eftir því að starfsemi stofnunarinnar yrði styrkt. AFP

Pollock segir að Bandaríkin séu víti til varnaðar. Þar sé rekið dýrasta og eyðslusamasta heilbrigðiskerfi heims og þrátt fyrir það sé þjónustan verri en í öðrum velmegunarþjóðum.

Ekkert ríki heims ver jafnmiklum peningi í heilbrigðisþjónustu og Bandaríkin, en samkvæmt tölum frá árinu 2014 var kostnaðurinn um 9.400 bandaríkjadalir á mann, tæp ein milljón króna. Inni í þeirri tölu eru bæði útgjöld einstaklinga, ríkisins og tryggingarfélaga. Til samanburðar verja Íslendingar tæpum 600.000 krónum á mann.

Markvisst grafið undan NHS

Pollock hefur staðið í málaferlum við breska ríkið vegna breytinga á opinbera heilbrigðiskerfi landsins (National Health Service, NHS), sem hún segir ætlað að veikja þjónustuna. 

Í lögsókninni naut hún stuðnings enska eðlisfræðingsins Stephen Hawking, sem lést fyrr á árinu. Pollock segir að Hawking hafi brunnið fyrir NHS. „Hann hefði ekki lifað svo lengi ef hann hefði fæðst í Bandaríkjunum,“ segir Pollock, en Hawking greindist með sjaldgæfan taugasjúkdóm frá 21 árs aldri og var búist við því að hann ætti aðeins nokkur ár ólifuð. Þau reyndust 55.

Pollock lýsir Stephen Hawking sem sósíalista sem vildi skilja við …
Pollock lýsir Stephen Hawking sem sósíalista sem vildi skilja við betri heiminn sem betri stað. AFP

Tilefni lögsóknarinnar var fyrirhuguð innleiðing svokallaðra Ábyrgra umönnunarsamtaka  (e. Accountable Care Organisations, ACO) í breskt heilbrigðiskerfi að bandarískri fyrirmynd. Slík umönnunarsamtök eru ábyrg fyrir ríkisfé, sem lagt er inn í reksturinn, og eiga að sjá um rekstur tiltekinnar þjónustu.

Þeim hefur verið legið á hálsi fyrir ógagnsæi og segja andstæðingar kerfisins að með þessu sé einkaaðilum gert kleift að ráðskast með skattfé. Breytingarnar hefðu verið mögulegar vegna umdeildra lagabreytinga sem gerðar voru árið 2012, þar sem opnað er á að einkaaðilum sé treyst fyrir samningsgerð við sjálfstætt starfandi læknastofur.

Breska ríkið lét undan og innleiðing umönnunarsamtakanna er ekki lengur í kortunum. „Þeir hafa hörfað, svo að við erum nú á sama stað og fyrir ári, áður en við hófum málaferlin. Við höfum hægt á einkavæðingunni en við höfum ekki stoppað hana,“ segir Pollock. „Það eina sem getur stöðvað hana er löggjöf.“

Forgöngumaður breytinganna var Simon Stevens, forstjóri NHS í Englandi, en hann starfaði í áratug hjá bandaríska heilbrigðisrisanum UnitedHealth. Þá var hann einn stofnenda þrýstihóps bandarískra stórfyrirtækja í heilbrigðisgeiranum sem hafði það að markmiði að nota TPP, fríverslunarviðræður Kyrrahafsríkja, til að skylda opinberar heilbrigðisstofnanir til að útvista verkefnum til einkarekinna stofa.

Gamli Verkamannaflokkurinn kominn aftur

Spurð út í flokkadrætti segir Allyson Pollock að lítill sem enginn munur hafi verið á heilbrigðisstefnu Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins á þeim tíma sem Tony Blair stýrði þeim síðarnefnda. Pollock vísar í sífellu til áhrifamanna innan ríkisstjórnar Blair sem flokksmanna „Nýja verkamannaflokksins“, New Labour, en það viðurnefni notaði Blair um flokkinn í þingkosningunum 1994 og hefur það orðið nokkurs konar viðurnefni ríkisstjórnar hans.

Tony Blair var forsætisráðherra Bretlands frá 1997 til 2007.
Tony Blair var forsætisráðherra Bretlands frá 1997 til 2007. AFP

Nýi Verkamannaflokkurinn bauð út mörg verkefni í umsjá NHS en jók sömuleiðis útgjöld til heilbrigðismála. „Útgjaldaaukningin var kannski helsti munurinn á Íhalds- og Verkamönnum þá.

Nú undir stjórn Jeremy Corbyn hafi Verkamenn hins vegar hafnað áherslum Blair og snúið aftur til sósíalískra áherslna, þeirra á endurreisnar NHS sem Pollock segir að sé að hruni komið í Englandi.

Velferðarkerfi allrar Evrópu undir

Allyson Pollock lítur á baráttuna fyrir bættu heilbrigðiskerfi í Bretlandi sem hluta af mun stærri baráttu. Fimm grunnstoðir velferðarsamfélagsins séu menntun, atvinnuöryggi, heilbrigðisþjónusta, öryggisnet fyrir þá sem standa höllum fæti og húsnæðisstuðningur.

Hún vísar til William Beveridge forsætisráðherra sem lagði áherslu á að mæta þessum þörfum, til að mynda með stofnun NHS. 

„Þetta varð módel fyrir velferðarsamfélög um alla álfuna, samfélög sem nýfrjálshyggjumenn að amerískri fyrirmynd reyna nú að eyðileggja,“ segir Pollock og vísar til efnahagskenningar kenndar við Chicago-háskólann, sem Milton Friedman og Friedrich Hayek aðhylltust.

Nýfrjálshyggjan sé útbreidd, sjálfmiðum og byggist á græðgi.

Allyson Pollock segir mikinn heiður að fá að koma hingað til lands á ráðstefnuna. Ísland sé glæsilegt land, fagurt og mikil samkennd meðal landsmanna. „Þið megið ekki glutra niður þeim ótrúlega árangri sem þið hafið náð. Lærið af því sem hefur komið fyrir breska heilbrigðiskerfið og forðist að fara sömu leið,“ segir hún að lokum.

Ásamt Pollock fluttu Sólveig Anna, formaður Eflingar, og Havin Guneser, …
Ásamt Pollock fluttu Sólveig Anna, formaður Eflingar, og Havin Guneser, blaðamaður, erindi á málþinginu í Norræna húsinu. mbl.is/Valli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert