Sagðist hafa brotið gegn stjúpdóttur sinni

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Jón Pétur

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í vikunni karlmann í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni þegar hún var á leikskólaaldri. Brotin áttu sér stað á árabilinu frá 2010 til 2014. 

Lögregla hafði áður rannsakað málið árið 2014 þegar grunur lék á að maðurinn hefði brotið gegn stúlkunni. Við rannsókn lögreglu fundust þó ekki næg sönnunargögn til ákæru og var málið því fellt niður.

Í maí á síðasta ári leitaði maðurinn svo til lögreglu að eigin frumkvæði og viðurkenndi að hafa brotið gegn stúlkunni. Maðurinn viðurkenndi meðal annars að hafa þuklað og strokið kynfæri stúlkunnar og að hafa í eitt skiptið tekið upp brot sín gegn stúlkunni þó að myndefninu hafi síðan verið eytt. 

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að um mjög alvarlegt brot sé að ræða þar sem manninum var trúað fyrir barninu og hafði við það fjölskyldutengsl. Á hinn bóginn var einnig litið til þess að maðurinn hafði hreinan sakaferil og að hann hafi iðrast verknaðarins. Þá kemur einnig fram í dómnum að maðurinn hafi af sjálfsdáðum tilkynnt glæp sinn til lögreglu í því skyni að barnið fengi þá aðstoð sem það þyrfti á að halda til að takast á við afleiðingar brotanna.

Af tveggja ára fangelsisdómi mannsins er 21 mánuður skilorðsbundinn svo honum verður einungis gert að sitja inni í þrjá mánuði auk þess sem hann þarf að greiða stúlkunni tvær milljónir króna í miskabætur.

Lesa má dóminn í heild sinni hér. 

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert