Blóðtaka fyrir Grundarfjörð

21 starfsmaður missir vinnuna vegna lokunar rækjuvinnslunnar.
21 starfsmaður missir vinnuna vegna lokunar rækjuvinnslunnar.

Ákvörðun FISK Seafood ehf. um að loka rækjuvinnslu fyrirtækisins í Grundarfirði kemur illa við bæinn og er mikil blóðtaka að mati Jósefs Ó. Kjartanssonar, forseta bæjarstjórnar Grundarfjarðar. Hann gagnrýnir harðlega samráðsleysi forsvarsmanna FISK Seafood gagnvart bæjaryfirvöldum.

Starfsfólki verksmiðjunnar var tilkynnt um ákvörðunina á fundi í gær og taka uppsagnir nítján starfsmanna gildi um næstu mánaðamót. Tveimur verður boðið að starfa við frágang og undirbúning sölu tækja og búnaðar á næstu mánuðum.

Langvarandi taprekstur

Ákvörðunin var tekin vegna langvarandi tapreksturs vinnslunnar, sem ekki virðist gerlegt að vinda ofan af við núverandi aðstæður, að því er fram kemur í tilkynningu frá FISK Seafood. Rekstrarumhverfi veiða og vinnslu á rækju á Íslandi er sagt hafa breyst verulega á undanförnum árum með óhjákvæmilegum samdráttaráhrifum.

„Það er auðvitað alltaf ömurlegt þegar fólki er sagt upp. Það er líka vont fyrir okkur sem bæjarfulltrúa að lesa fyrst um þetta í blöðunum. Þetta samráðsleysi er ekki til fyrirmyndar,“ segir Jósef í samtali við Morgunblaðið í dag. „Ég skil vel að forsvarsmenn fyrirtækisins vilji ræða sérstaklega við starfsfólkið, en mér hefði fundist eðlilegt að við heyrðum af þessu áður en fréttatilkynningar voru sendar út,“ segir hann.

Mjög munar um störfin tuttugu

Jósef segir að lokunin sé mikið áfall fyrir bæinn. Miklu muni um störfin tuttugu. „Í bæ þar sem íbúar eru um 800 og helmingurinn af þeim er börn og eldri borgarar munar mjög um tuttugu manns sem vinna. Þetta þýðir minni útsvarstekjur, þetta er tekjutap. Síðan er alltaf talað um að fólk finni sér aðra vinnu í staðinn, en það er alls ekki í hendi. Það er ekki búið að tilkynna mér um neinar hugmyndir að lausnum eða slíku,“ segir hann. „Ég geri ekki lítið úr því að þetta geti verið erfiður rekstur, en ég gagnrýni aðferðafræðina,“ segir hann enn fremur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert