Kólnar heldur næstu daga

Veðrið á hádegi í dag, laugardag.
Veðrið á hádegi í dag, laugardag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Hæglætisveður og dálítil rigning eða þokusúld verður vestan og norðan til á landinu í dag og á morgun, en að mestu þurrt suðaustan til og jafnvel einhver sól um tíma. Hiti verður á bilinu 8 til 18 stig, hlýjast á Suðaustur- og Austurlandi.

Á mánudag verður norðaustlægari átt og útlit fyrir að stytti upp á Vesturlandi og Vestfjörðum, en annars staðar þungbúið og vætusamt.

Skúrir eða rigning með köflum á þriðjudag og miðvikudag en á fimmtudag er útlit fyrir strekkings austanátt með rigningu sunnan til en þurru lengst af fyrir norðan. Það kólnar heldur næstu daga en síðan fer hlýnandi aftur um miðja næstu viku, samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofu Íslands. 

Veðurhorfur næstu daga eru þessar:

Á sunnudag:
Norðlæg átt, 3-8 m/s, en vestlægari syðst. Dálítil rigning um landið norðanvert en skýjað syðra og stöku skúrir síðdegis. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á Suðausturlandi. 

Á mánudag og þriðjudag:
Norðaustlæg átt, 5-8 norðvestan til, en annars hægari. Skýjað og dálítil rigning eða skúrir. Hiti 6 til 13 stig. 

Á miðvikudag:
Suðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og skúrir. Hiti 8 til 15 stig. 

Á fimmtudag:
Austlæg átt með rigningu sunnanlands en þurrt lengst af fyrir norðan. Hlýnar heldur í veðri. 

Á föstudag:
Suðlæg átt og rigning með köflum, en bjart norðaustanlands. Áfram milt veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert