Ást og friður á LungA

Gleðin og væntumþykjan var ríkjandi á LungA.
Gleðin og væntumþykjan var ríkjandi á LungA. Ljósmynd/Hrefna Björg Gylfadóttir

Listahátíðin LungA, listahátíð ungs fólks, fór fram á Seyðisfirði síðastliðna viku og lauk henni í gær. Þangað lagði fjöldi listunnenda leið sína og gekk hátíðin vonum framar að sögn skipuleggjenda. Þó svo að flestir séu þreyttir í lok vikunnar segja skipuleggjendur að allir snúi til síns heima fullir af kærleik og innblæstri. 

LungA á sér 18 ára sögu en hefur þróast og dafnað ár frá ári. Skipuleggjendur eru sammála um að hátíðin hafi tekist einstaklega vel til í ár og eru ánægðir með afraksturinn. Hátíðin stendur yfir í heila viku þar sem eru starfræktar ýmsar listasmiðjur og listamenn á heimsmælikvarða miðla þar sinni reynslu og þekkingu til gesta. Í lok viku er svo blásið til tónlistarveislu þar sem tónlistarfólk í fremstu röð treður upp á vinsælum tónleikum. 

Um 1.500 manns sóttu tónleika á föstudags- og laugardagskvöldið á …
Um 1.500 manns sóttu tónleika á föstudags- og laugardagskvöldið á LungA. Ljósmynd/Hrefna Björg Gylfadóttir

Gleði og væntumþykja ríkjandi

Sesselja Hlín Jónasardóttir, sem er yfir listasmiðjum LungA, var kampakát með vikuna þegar blaðamaður mbl.is náði tali af henni. „Þetta hefur gengið rosalega vel, búin að vera æðisleg hátíð. Hér var frábært andrúmsloft, við vorum rosalega heppin með veður og æðislegir listamenn sem komu og voru með listasmiðjur. Þetta var bara frábært,“ segir Sesselja. Þátttakendur í listasmiðjunum voru um 140 talsins í sjö starfandi listasmiðjum. Þá voru um 1.500 manns sem sóttu tónleikana á föstudags- og laugardagskvöldið. 

Tónlistarfólk í fremstu röð tróð upp á Lunga. Þeirra á …
Tónlistarfólk í fremstu röð tróð upp á Lunga. Þeirra á meðal var tónlistarmaðurinn Auður. Ljósmynd/Hrefna Björg Gylfadóttir

Aðspurð hvernig stemningin hafi verið á hátíðinni segir Sesselja að ást og friður hafi verið ríkjandi. „Hér er alltaf mjög dásamleg stemning. Við leggjum mikið upp úr því að passa hvert upp á annað og virða náungann. Þetta er lítil hátíð þannig séð og þar af leiðandi verður meiri nánd sem dreifir úr sér, gleði og væntumþykja.“

„Fjöllin faðma mann“

Fólk kemur víða að til þess að sækja hátíðina en Sesselja segir ekki nauðsynlegt að hafa mikinn áhuga á listum til þess að geta notið LungA. „Þetta er fyrir alla, ódýrt að vera hér og sjá heimsklassa listamenn að störfum. Við viljum ekki hindra neinn í því að koma,“ segir hún og bætir við að umhverfið gerist ekki betra en á Seyðisfirði. „Fjöllin faðma mann og gefa manni orku. [...] Það er bara svo mikil fegurð sem fylgir þessari hátíð.“   

Ljósmynd/Hrefna Björg Gylfadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert