Breki sækist eftir formennsku í Neytendasamtökunum

Breki Karlsson.
Breki Karlsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breki Karlsson hefur ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í Neytendasamtökunum.

Breki, sem hefur undanfarinn áratug unnið að neytendamálum sem forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, segist hafa víðtæka reynslu af því að leiða saman ólíka aðila til eflingar fjármálalæsis og stuðlað að vitundarvakningu um fjármálalæsi meðal almennings, menntun og stefnumótun í samstarfi við stjórnvöld, stofnanir og almannasamtök.

„Við eflum Neytendasamtökin fyrst og fremst með því að virkja enn betur þann kraft og samtakamátt sem býr í félagsmönnum sjálfum. Um leið þarf að sækja fram og fjölga félagsmönnum því nauðsynlegt er að á Íslandi sé til fjölmenn samstillt og öflug hreyfing fólks sem sér um að veita stjórnvöldum og fyrirtækjum á Íslandi virkt aðhald í neytendamálum og stuðlar þannig að heilbrigðari viðskiptaháttum og betra samfélagi,“ segir Breki m.a. í tilkynningu.

Hann segir að fjármál einstaklinga séu tvímælalaust eitt stærsta neytendamálið og verði hann  kjörinn, muni hann halda áfram að leggja áherslu á vitundarvakningu fólks um þann mikla ávinning sem fylgi því að vera virkir og meðvitaðir neytendur sem læsir séu á þá valkosti sem samfélagið bjóði upp á í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert