Sigfús ráðinn sveitarstjóri Skagafjarðar

Sigfús Ingi Sigfússon, nýr sveitarstjóri sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Sigfús Ingi Sigfússon, nýr sveitarstjóri sveitarfélagsins Skagafjarðar. Ljósmynd/Skagafjörður

Sigfús Ingi Sigfússon hefur verið ráðinn í starf sveitarstjóra sveitarfélagsins Skagafjarðar til ársins 2022. Áætlað er að hann taki til starfa 22. ágúst. Greint er frá ráðningunni á vef sveitarfélagsins, en þar segir að samþykkt hafi verið samhljóða á fundi byggðarráðs Skagafjarðar í gær að ráða Sigfús til starfa.

Sigfús Ingi er 42 ára gamall og hefur undanfarin ár starfað sem verkefnastjóri í atvinnu-, menningar- og kynningarmálum hjá sveitarfélaginu. Þá segir að hann hafi viðamikla reynslu úr störfum í opinberri stjórnsýslu hjá bæði ríki og sveitarfélagi og hefur einnig starfað hjá fyrirtækjum á einkamarkaði.

Sigfús lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og MBA-gráðu frá University of Stirling í Skotlandi árið 2002, auk þess hefur hann stundað nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.

Alls sóttu 17 einstaklingar um starfið en 4 drógu umsókn sína til baka. Ráðningarferlið var í höndum ráðninga- og ráðgjafafyrirtækisins Hagvangs og að teknu tilliti til faglegs mats og umsagnar Hagvangs var ákveðið að ráða Sigfús Inga í starfið.

Sigfús Ingi er kvæntur Laufeyju Leifsdóttur, ritstjóra hjá Forlaginu, og eiga þau þrjú börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert