Viku af „ólögmætum fundi“

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Valli

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar telja fund ráðsins sem nú stendur yfir ólögmætan, enda sé ekki rétt staðið að boðun fundarins.

Fram kemur í tilkynningu frá sjálfstæðismönnum, að fulltrúar flokksins hefðu ákveðið að víkja af fundi ráðsins í morgun vegna þessa. Athygli formanns ráðsins, Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur, hafi verið vakin á málinu í gær og farið fram á að fundinum yrði frestað og boðað til hans að nýju.  

Í fyrsta lagi gera fulltrúar Sjálfstæðisflokks athugasemdir við boðun fundarins. Skipulags- og samgönguráð starfi enn samkvæmt samþykktum um umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar frá 21. júní 2016. Í 2. mgr. 7. gr. samþykktanna komi fram að fundi skuli boða með minnst sólarhrings fyrirvara og að dagskrá skuli fylgja fundarboði, að því er segir í tilkyningu.

Fékk ekki fundarboð á réttum tíma og engin dagskrá fylgdi

Þá segir að formanni ráðsins hafi annars vegar láðst senda borgarfulltrúanum og fulltrúa Sjálfstæðisflokks í ráðinu, Hildi Björnsdóttur, fundarboð innan lögbundins frests en það sama eigi við um áheyrnarfulltrúa Miðflokksins. Hins vegar hafi dagskrá fundarins ekki fylgt fundarboði líkt og 2. mgr. 7. gr. samþykktanna geri ráð fyrir. Þá barst dagskráin ekki fulltrúum ráðsins fyrr en eftir hádegi í gær, degi fyrir áformaðan fund.

„Það getur með engu móti talist nægjanlegur tími fyrir ráðsmenn að kynna sér efni og gögn fundarins með fullnægjandi hætti, enda gögnin fleiri hundruð blaðsíður. Á dagskrá fundarins eru 75 mál og umtalsverður fjöldi gagna sem ráðsmenn verða að kynna sér. Flest þessara mála varða heilmikla hagsmuni fyrir borgarbúa og skiptir miklu að rétt sé haldið á allri ákvarðanatöku. Öðrum kosti geta þeir aðilar sem eiga mál fyrir nefndinni, látið reyna á lögmæti ákvarðanatöku fundarins, fyrir dómstólum eða eftir öðrum leiðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja ríka áherslu á vönduð og fagleg vinnubrögð í málaflokknum,“ segir í tilkynningu.

Mál sjálfstæðismanna ekki sett á dagskrá og skýringarnar ófullnægjandi

Þá segjast fulltrúar Sjálfstæðisflokks í ráðinu hafa óskað eftir því við formann ráðsins, að tiltekin mál yrðu sett á dagskrá fundarins. Erindi þess efnis hafi verið sent formanni tveimur dögum fyrir áformaðan fund. Um beiðnina vísast aftur til 2. mgr. 7. gr. samþykktanna en þar komi einnig fram að á dagskrá skuli tekin þau mál sem fulltrúar ráðsins hafi óskað eftir, enda séu þau á verksviði ráðsins.

„Ekkert þessara mála var sett á dagskrá fundarins og engar skýringar bárust fyrr en í gærkvöldi hvað þá ákvörðun varðaði sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja með öllu ófullnægjandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert