Segist ranglega sökuð um trúnaðarbrot

Vigdís Hauksdóttir lagði fram bókun vegna framkomu embættismanna í kjölfar …
Vigdís Hauksdóttir lagði fram bókun vegna framkomu embættismanna í kjölfar skaðabótamáls sem borgin tapaði vegna framkomu embættismanns borgarinnar við annan starfsmann. mbl.is/Styrmir Kári

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins í Reykjavík, segir Stefán Eiríksson borgarritara ranglega saka sig um að hafa brotið trúnað borgarráðs með því að hafa tjáð sig um skaðabótamálið sem Reykjavíkurborg tapaði vegna framkomu skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra gagnvart starfsmanni borgarinnar. 

Þetta kemur fram í bókun sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins lögðu fram á fundi borgarráðs fyrr í dag en þar kemur fram að oddvitum flokkanna þriggja, auk oddvita Sósíalistaflokksins, hafi borist bréf frá framkvæmdastjóra stéttarfélags starfsmannsins sem var beittur órétti af Reykjavíkurborg.

Í póstinum til borgarfulltrúanna lýsir framkvæmdastjóri Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga yfir þungum áhyggjum af fordæmalausri málsmeðferð skrifstofu borgarstjóra eftir að dómurinn féll, segir í bókun borgarfulltrúanna.

„Föstudaginn 10. ágúst 2018, sendi borgarritari harðort tölvuskeyti til Vigdísar vegna færslu sem hún birti á Facebook. Þar var hún ranglega sökuð um að hafa brotið trúnað borgarráðs og vísað var í umræðu um þetta mál á fundi ráðsins 31. júlí sl., segir í bókuninni. „Alvarlegasti hluti tölvuskeytisins eru hótanir borgarritara til kjörins fulltrúa þar sem vísað er í siðareglur og lög.“

Frá eldri fundi borgarráðs.
Frá eldri fundi borgarráðs. mbl.is/Valli

Þá hefur umræddur skrifstofustjóri óskað eftir því að forsætisnefnd Reykjavíkurborgar taki til skoðunar hvort ákvæði sveitarstjórnarlaga um réttindi og skyldur kjörinna fulltrúa og siðareglur þeirra hafi verið brotin í umræðu um að hún hafi lagt undirmann sinn í einelti.

Að sögn Vigdísar virðist ljóst af pósti skrifstofustjórans að hún hafi ekki vitað af samskiptum framkvæmdastjóra stéttarfélags starfsmannsins og borgarfulltrúa minnihlutans. „Og byggði allt þetta bréf á röngum grunni um að ég hefði brotið trúnað. Ég hef engan trúnað brotið gagnvart borgarráði og ég sæki allar mínar upplýsingar til framkvæmdastjóra stéttarfélagsins,“ segir Vigdís.

„Stjórnsýsla Reykjavíkur situr uppi með að byggja allan málflutning gegn kjörnum fulltrúum á að ég hafi brotið trúnað. Það var afsannað á þessum fundi. Ég hef allan tímann verið með hreinan skjöld í þessu máli,“ segir Vigdís.

Bókunin sem var lögð fram af fulltrúum Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins á borgarráðsfundinum í heild sinni:

Oddvitum D,J,F og M barst tölvuskeyti frá framkvæmdarstjóra Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga 9. ágúst sl. Í erindinu er lýst yfir þungum áhyggjum af fordæmalausri málsmeðferð skrifstofu borgarstjóra eftir að dómur féll í héraði í máli nr. E-3132/2017. Föstudaginn 10. ágúst 2018, sendi borgarritari harðort tölvuskeyti til Vigdísar Hauksdóttur, vegna færslu sem hún birti á facebook. Þar var hún ranglega sökuð um að hafa brotið trúnað borgarráðs og vísað var í umræðu um þetta mál á fundi ráðsins 31. júlí sl. Alvarlegasti hluti tölvuskeytisins eru hótanir borgarritara til kjörins fulltrúa þar sem vísað er í siðareglur og lög.

Þann 15. ágúst kl. 16:31 birtist frétt á vef RÚV um bréf skrifstofustjóra borgarstjóra sem taka á fyrir á fundi forsætisnefndar 17. ágúst nk., en það er efnislega mjög samhljóða tölvuskeyti borgarritara. Eitt af verkefnum borgarráðs er að hafa „umsjón með stjórnsýslu borgarinnar“, eins og segir í 46.gr. samþykkta um stjórn Reykjavíkurborgar, auk þess að „ráða starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður hjá Reykjavíkurborg og veita þeim lausn frá störfum“, eins og segir í 73.gr. Borgarfulltrúar M, D og F munu því halda áfram að rækja þessar skyldur sínar, þrátt fyrir síendurteknar tilraunir embættismanna að þagga niður í þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert