Síðasta kæran felld niður

mbl.is/Ófeigur

Búið er að fella niður áttundu og síðustu kæruna sem barst á hendur karlmanni sem starfaði sem stuðningsfulltrúi hjá Reykjavíkurborg, en hann var sakaður um að hafa beitt börn grófu kynferðislegu ofbeldi. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari við mbl.is. Fyrst var greint frá málinu á Rúv.

Maðurinn var ákærður fyrir brot gegn fjórum börnum, en var sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness fyrr í sumar. Þá er annaðhvort búið að fella niður eða ákæra í öllum þeim átta kærumálum sem hafa borist á hendur manninum.

Maðurinn er á fimmtugsaldri og sat í gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 19. janúar og þar til dómur var kveðinn upp í lok júlí. Ákæruvaldið hefur áfrýjað sýknudómnum til Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert