„Verið að gera úlfalda úr mýflugu“

Glýfosat er notað í plöntueyði til þess að draga úr …
Glýfosat er notað í plöntueyði til þess að draga úr útbreiðslu illgresis og annars gróðurs í görðum og við matvælaframleiðslu svo sem kornrækt. Ekki er talin hætta af notkun efnisins. mbl.is/​Hari

„Það er tiltölulega nýfarið að tala um að glýfosat sé mögulega krabbameinsvaldur, en það hefur verið lengi notað og í miklu magni. Sé það mikill skaðvaldur er sennilegt að vísbendingar hefðu komið fram fyrir löngu. Mér finnst verið að gera úlfalda úr mýflugu,“ segir Kristín Ólafsdóttir, doktor í lífefnafræði og deildarstjóri rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði læknadeildar Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Guardian sagði fyrst frá því að að efnið glýfosat, úr plöntueyðinum Roundup, hefði mælst í kornvörum frá stórum framleiðendum á borð við Quakers, General Mills og Kelloggs. Í vikunni féll einnig dómur garðyrkju­manni í Bandaríkjunum í hag í máli sem hann höfðaði gegn fram­leiðanda Roundup, Monsanto, þar sem hann taldi að efnið glý­fosat hefði valdið krabba­meini.

Fram kemur í tilkynningu Matvælastofnunar að mælingarnar sem hafa verið kynntar sýni að glýfosat hafi mælst undir evrópskum viðmiðunarmörkum. Hæstu gildin sem voru birt voru 1,3 ppm í hafravöru Quakers, Quaker Old Fashioned Oats, á meðan eru hámarksgildi í höfrum 20 ppm og 10 ppm fyrir rúg og hveiti.

Þá segir að „þessi gildi gefa ekki tilefni til að vara við neyslu á þessum vörum, hvorki fyrir fullorðna né fyrir börn“.

Ekki hættulegt þótt efni finnist

Hún segir sjálfgefið að finna leifar af efnum sem eru notuð við matvælaframleiðslu ef skoðað er nógu grannt. „Ef maður fer nógu langt niður með greiningarmörkin mun alltaf eitthvað finnast. Efnagreiningartækninni hefur fleygt svo rosalega fram að það sem var sagt í gamla daga að væri ekkert í, það þýðir bara að greiningarmörkin voru hærri. Þetta kemur ekki á óvart.“

„Ef maður á annað borð hefur meðhöndlað matvæli með einhverjum efnum þá muntu finna einhverja sameind í matvælunum, en mjög líklega er það margfalt undir því sem er talið hættulegt. Þannig að það þarf alltaf að setja þetta í samhengi við hættumörkin og þótt eitthvað mælist þýðir það ekki að þetta sé hættulegt í þeim styrk,“ segir Kristín.

Reglur gerðar af miklu öryggi

Við gerð viðmiðunarmarka er tekið tillit til úr hversu mörgum matvælum umrætt efni geti komið og deilt eftir tegundum. Síðan er skoðað hvaða mörk valda engum áhrifum í dýrum og svo er því gildi deilt með hundrað til þess að hafa eitthvert öryggisbil fyrir menn, að sögn Kristínar.

Hún segir reglur um matvælaframleiðslu gerðar af miklu öryggi. „Það er nokkuð öruggt að hægt sé að treysta viðmiðunarmörkum, nema fólk borði ekkert nema einhverja eina fæðutegund í öll mál alla daga,“ segir Kristín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert