Annasamur dagur hjá Strætó

mbl.is/Valli

Vel hefur gengið hjá Strætó í dag þrátt fyrir miklar annir. Eitthvað var um tafir í byrjun dags vegna götulokana en að öðru leyti hefur dagurinn gengið vel og vagnarnir verið þétt setnir að sögn Guðmundar Heiðars Helgasonar, upplýsingafulltrúa Strætó.

Fyrstu tölur benda til þess að fleiri hafi tekið strætó á menningarnótt í ár en í fyrra, og sérstaklega þegar leið á kvöldið. Fleiri hafi verið á leið heim í fyrra þegar fólk var á leið í bæinn í ár.

„Það er almennt mikil ánægja með þennan dag hjá bílstjórunum okkar,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is. „Sérstaklega seinnipartinn, og það eru margir sem biðja sérstaklega um að fá að vera með þá,“ bætir Guðmundur við og segir það líklegast stafa af því að allir vilji vera með þegar vel gengur. „Skipulagið er skemmtilegt og farþegarnir eru jákvæðir.“

Klukkan hálfellefu breytir strætó úr almennu kerfi yfir í svokallað tæmingarkerfi sem miðast að því að koma sem flestum úr miðbænum á sem skemmstum tíma. Tæmingarkerfinu lýkur klukkan eitt og þá tekur næturstrætó við. Ekki er frítt í næturstrætó eins og í aðrar ferðir með Strætó í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert