Met slegið í söfnun áheita

Frá Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra.
Frá Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Alls hafa 14.579 manns skráð sig til þátttöku í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, sem fram fer í dag í 35. sinn. Aldrei áður hafa jafnmargir skráð sig í 10 kílómetra hlaupið, auk þess sem það stefnir í metfjölda í svokölluðu þriggja kílómetra skemmtiskokki. Ljóst er enn fremur að metið í söfnun áheita, frá því í fyrra, hefur þegar verið slegið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, en þar er tekið fram að enn verður hægt að skrá sig í skemmtiskokk í Menntaskólanum í Reykjavík í dag.

Eru hlauparar og áhorfendur hvattir til að mæta tímanlega við Lækjargötu og gera um leið ráð fyrir að það taki lengri tíma að koma sér á staðinn vegna götulokana og fjölmennis á svæðinu.

Áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka á https://www.hlaupastyrkur.is/ er þá sögð ganga frábærlega, en búið er að safna 24% hærri upphæð en á sama tíma í fyrra. Heildarupphæð safnaðra áheita nálgast nú 130 milljónir og því ljóst að 118 milljón króna metið frá því í fyrra hefur verið slegið. Áheitasöfnunin verður opin til miðnættis á mánudag.

Dagskrá hlaupsins

Úrslit í beinni

Góðir hvatningarstaðir

Truflun á umferð

Kort af hlaupaleiðum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert