Nokkrir hlauparar fluttir á slysadeild

Það getur tekið á að hlaupa langar vegalengdir, en færri …
Það getur tekið á að hlaupa langar vegalengdir, en færri fóru á slysadeild í ár en mörg fyrri ár. mbl.is/Valli

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í kringum Reykjavíkurmaraþonið, sem fram fór í morgun. Flytja þurfti á bilinu 7-9 hlaupara til aðhlynningar á slysadeild sökum örmögnunar og er það minna en mörg fyrri ár.

Þá fengu nokkrir tugir hlaupara aðhlynningu í sjúkratjöldum sem voru staðsett við brautina og í endamarkið, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu. Heilt yfir gekk dagurinn vel og færri hlauparar sem þurftu aðhlynningu í ár en oft áður.

Talsmaður slökkviliðsins segir að fólk verði stundum svo þreytt á hlaupunum að það viti vart hvað það heiti þegar það kemur í mark. Sumir haldi einnig að þeir séu í betra formi en raun ber síðan vitni og svo geti dagsformið verið misjafnt, þannig að fólk örmagnast eða fær krampa í vöðvana.

Alls voru 14.579 hlauparar skráðir til þátt­töku í Reykja­vík­ur­m­araþoninu, sem í dag fór fram í 35. sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert