Stefnir í yfir 50% kjörsókn

Íbúar í Árborg kjósa um aðal- og deiliskipulag vegna nýs …
Íbúar í Árborg kjósa um aðal- og deiliskipulag vegna nýs miðbæjar á Selfossi. mbl.is/Árni Sæberg

Ágætislíkur eru á að kjörsókn fari yfir 50 prósent í íbúakosningum í Árborg þar sem íbúar kjósa um aðal- og deiliskipulag nýs miðbæjar á Selfossi. Þetta segir Ingimundur Sigurmundsson, formaður yfirkjörstjórnar, í samtali við mbl.is.

„Klukkan 16 höfðu 2.211 kosið, sem eru 33 prósent,“ segir Ingimundur í samtali við mbl.is. Til viðbótar hafa á sjötta hundrað kosið utankjörfundar sem er ekki talið með, og nálgast kjörsóknin því 50 prósent.

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti að kosningin yrði bindandi færi kjörsókn yfir 29 prósent, og er því ljóst að kosningin verður bindandi.

„Það er sama hlutfall á Selfossi og á ströndinni. Þetta er mjög keimlíkt,“ segir Ingimundur, en kjörstaðir eru einnig opnir á Stokkseyri og Eyrarbakka, auk Vallaskóla á Selfossi. 

Kjörstaðir loka klukkan 18 og von er á fyrstu tölum fljótlega eftir að kjörstöðum lokar.

Uppfært 17:24

Kjörsókn í Árborg kl. 17 er 40,14%.  Þessi tala er fyrir utan utankjörfundaratkvæði svo það stefnir í að þáttaka verði um 50%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert