Afbrotum fjölgar í flestum flokkum

Júlí var annar mánuðurinn í röð þar sem fíkniefnaakstursbrot voru …
Júlí var annar mánuðurinn í röð þar sem fíkniefnaakstursbrot voru flest frá upphafi hjá lögregluembættinu á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert

Skráðum afbrotum hefur fjölgað í níu flokkum af fjórtán það sem af er ári miðað við meðaltal síðastliðinna þriggja ára á undan. Tilkynntum kynferðisbrotum og þjófnaðarmálum hefur fækkað á sama tíma. Afbrotum hefur þó fækkað í flestum brotaflokkum miðað við síðustu mánuði. Þetta og fleira kemur fram í nýrri afbrotatölfræði frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem birt var í dag.

Aukinn ölvunar- og fíkniefnaakstur

Í umræddri mánaðarskýrslu kemur m.a. fram að það sem af er ári hafi skráðum ölvunarakstursbrotum fjölgað um 40% og fíkniefnaakstursbrotum um 59% miðað við meðaltal á sama tímabili sl. þrjú ár. 63% fleiri beiðnir um leit að börnum og ungmennum bárust lögreglunni og skráðum tilvikum þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi fjölgaði um 66%.

Í júlí bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 12 tilkynningar um kynferðisbrot sem áttu sér stað í júlí og hafa henni því borist um tíu prósent færri tilkynningar um kynferðisbrot það sem af er ári m.v. meðaltal á sama tímabili sl. þrjú ár. Tilkynningum um þjófnað hefur einnig fækkað um átta prósent.

Meðaltal skráðra hegningarlagabrota, umferðarlagabrota og tilkynninga um nytjastuld á vélknúnum ökutækjum stendur í stað miðað við fyrri ár.

Fækkun miðað við síðustu mánuði

Heilt yfir fækkaði brotum í flestum brotaflokkum miðað við fjölda síðustu sex og síðustu tólf mánuði á undan. T.a.m. fækkaði hegningarlagabrotum úr 795 í júní í 667 í júlí. Einnig fækkaði meiri háttar líkamsárásum úr 21 í júní í 13 í júlí og fíkniefnabrotum fækkaði úr 207 í 113 á sama tíma.

Skráðum brotum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna fjölgaði úr 163 í 189 í júní. Þetta er því annar mánuðurinn í röð þar sem þessi brot eru flest frá upphafi hjá embættinu.

Í skýrslunni segir þó að um bráðabirgðatölur sé að ræða þar sem fjöldi geti breyst með brotum sem kærð eru seint.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert