Hljóp út í móa til að flýja lögreglu

Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði um helgina tók á sprett út í móa til að flýja lögregluna. Hann sinnti því ekki þegar lögreglan gaf honum fyrirmæli um að stöðva og lögreglumaður hljóp hann þá uppi. Ökumaðurinn náði að sparka í lögreglumanninn svo á honum sá. Ökumaðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð. Hann er grunaður um fíkniefna- og ölvunarakstur.

Nokkur umferðaróhöpp komu einnig inn á borð lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina.

Ökumaður var fluttur með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eftir árekstur á Vogavegi. Þá hafði bifreið verið ekið inn í hlið annarrar bifreiðar. Bifreið þess sem slasaðist var fjarlægð með dráttarbifreið.  

Annar ökumaður var fluttur með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eftir að hafa fallið af bifhjóli sínu á Stafnesvegi þegar hann missti stjórn á því í beygju. Meiðsl hans voru ekki talin alvarleg.  

Ölvaður ökumaður velti bifreið sinni á Reykjanesbraut við Kúagerði. Hann ók utan í aðra bifreið sem hann tók fram úr með þeim afleiðingum að bifreið hans snerist á veginum, fór rúmlega eina veltu og endaði á hliðinni milli akbrautanna. Engin slys urðu á fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert