Gæsaveiðimenn til fyrirmyndar

Á gæsaveiðum.
Á gæsaveiðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á Norðurlandi vestra hafði afskipti af á fjórða tug veiðimanna í gær þegar gæsaveiðitímabilið hófst. Segir lögreglan að allir, fyrir utan einn, hafi verið til fyrirmyndar, eftir að hafa farið yfir reglur um skotveiðar, kannað skotvopnaréttindi, veiðikort og skotvopn veiðimannanna.

Þessi eini veiðimaður gat ekki sýnt fram á gilt veiðikort. „Einum veiðimanni sem var að gera sig kláran til veiða við tjörn nokkra var gert að hætta við þá fyrirætlan þar sem hann gat ekki sýnt fram á gilt veiðikort,“ segir í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar, en samkvæmt reglugerð um veiðikort skal veiðimaður bera á sér slíkt kort á veiðum ásamt persónuskilríkjum.

„Það var samdóma álit þeirra veiðimanna sem rætt var við að þeir fögnuðu þessu framtaki lögreglunnar og voru hæstánægðir með samskiptin,“ segir jafnframt í færslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert