„Oft erfitt fyrir íþróttafólk að tilkynna“

Lilja og Hafdís á blaðamannafundi um tillögurnar auk Óskars Þórs …
Lilja og Hafdís á blaðamannafundi um tillögurnar auk Óskars Þórs Ármannssonar, formanns starfshópsins. mbl.is/Arnþór

„Það voru um 62 frásagnir. Af öllum þessum #metoo-hópum sem stigu fram voru 17 frásagnir af nauðgunum. 9 af þeim voru frá íþróttum,“ segir Hafdís Inga Helgudóttir Hinriksdóttir, fyrrverandi landsliðskona í handknattleik. Hafdís var í starfshópi mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem kynnti í dag tillögur sínar um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Hafdís Inga var ein þriggja íþróttakvenna sem komu fram í Kastljósi í byrjun árs og sögðu frá kynbundnu ofbeldi í íþróttum. Það sama kvöld fékk Hafdís svo símtal frá ráðuneytinu, en Íþróttakonur birtu alls 62 frásagnir um áreiti, ofbeldi og mismunun innan íþróttaheimsins 11. janúar. 

 „Við birtum frásagnirnar að degi til, fórum um kvöldið í Kastljós og ég var bara að labba þaðan út þegar ritari ráðherra hringir og boðar okkur á fund daginn eftir.“

Hafdís segir það hafa komið skemmtilega á óvart hve fljót Lilja Alfreðsdóttir og ráðuneyti hennar voru að bregðast við og er hún þakklát fyrir þá alvöru sem málinu var sýnd.

„Ef ég er 100% hreinskilin þá átti ég von á því að það myndi taka meiri baráttu að ná því í gegn. Það urðu bara fagnaðarlæti á bílaplaninu. Við fögnuðum því virkilega að það væri hlustað strax. Í þættinum skoruðum við meðal annars á Lilju að bregðast við og hún gerði það svo sannarlega strax. Við eiginlega trúðum því varla. Þetta er líka ákveðin valdefling að það sé hlustað á okkur. Að þetta skipti máli.“

Segir margt hafa verið augljóst

Á fundi í mennta- og menningarmálaráðuneytinu daginn eftir frásagnir íþróttakvennanna þriggja í Kastljósi var svo ákveðið að stofna starfshóp um málið sem hefði það að markmiði að koma með tillögur um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni innan íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Í hópnum voru fulltrúar frá ráðuneytinu, UMFÍ, ÍSÍ, sveitarfélögunum og víðar og var markmiðið að hafa eins víðtækan hóp um málið og hægt væri. Hópurinn skilaði svo tillögum sínum til Lilju fyrir um mánuði.

Hafdís segir að hópurinn hafi verið mjög samstíga í vinnslu tillaganna.

„Margt af þessu var fyrir mér augljóst. En við ræddum hlutina fram og til baka og það er margt inni í þessu sem ég er mjög stolt af.“

Á meðal tillaganna sem hópurinn lagði fram eru:

  • Að til staðar sé óháður aðili sem getur tekið við símtölum, tilkynningum eða öðrum samskiptum um ofbeldi og aðra óæskilega hegðun og komið þeim í réttan farveg.
  • Að skýrir og samhæfðir verkferlar og viðbragðsáætlanir séu til staðar hjá félögum og samtökum í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
  • Að fræðsluefni um kynferðislegt ofbeldi og óæskilega hegðun sé samræmt og að allir sem bera ábyrgð á íþrótta- og æskulýðsstarfi hafi grunnþekkingu á því hvernig bregðast eigi við þegar upp koma mál sem tengjast áreitni eða ofbeldi.
  • Að unnið sé markvisst í jafnréttismálum á vegum íþróttahreyfingarinnar.
  • Að óheimilt verði að ráða til starfa hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum einstaklinga sem hlotið hafa refsidóma fyrir brot sem falla undir kynferðisbrotakafla hegningarlaga.

Tillagan um að til staðar sé óháður aðili sem iðkendur geti leitað til vegna viðkvæmra mála er nú þegar komin í farveg innan ráðuneytisins.

Mikilvægt að einhver hafi hagsmuni brotaþola að leiðarljósi

Hafdís segir það mjög mikilvægt fyrir iðkendur því að oft þorir fólk ekki að fara með ofbeldismál til forsvarsmanna sinna íþróttafélaga þar sem hagsmunir þeirra gætu legið annars staðar en hjá brotaþola.

„Við vitum það að það er oft erfitt fyrir íþróttafólk að fara og tilkynna. Þú þarft kannski að fara til formanns sem hefur hagsmuni félagsins ofar en hagsmuni iðkandans. Það er lykilatriði að hafa þarna aðila sem er óháður og tekur á málunum á faglegan hátt. Tilkynnir þau mál sem koma upp til viðeigandi stofnana og heldur þá líka utan um þau. Það er engin tölfræði til um þau mál sem koma upp innan íþróttahreyfingarinnar.“

Þá segir Hafdís forvarnir og fræðslu einnig geta skipt sköpum og þá sérstaklega til lengri tíma litið þar sem viðeigandi fræðsla getur oft verið fyrirbyggjandi.  

„Það sem mér finnst algjört lykilatriði er öll þessi fræðsla. Að fara með fræðsluna niður í yngri flokkana og byrjum strax að hamra á þessu, bæði jafnrétti og sömuleiðis hvernig við komum fram við hvert annað.“

Vill að konur geti verið öruggar í umhverfinu

Hafdís segist vonast til þess að tillögurnar og þær aðgerðir stjórnvalda sem koma til með að byggja á þeim munu hafa nauðsynleg og mælanleg áhrif á íþróttamenningu á Íslandi.

„Í draumaheimi mínum, ég leyfi mér stundum að fljúga ansi hátt, þar langar mig að sjá konur og karla jafnmikils metin sem íþróttafólk. Að virðingin sé sú sama og að það sé ekki þessi mismunun. Að við íþróttakonur þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að þjálfarinn reyni við okkur. Að þetta sé bara faglegt og maður geti verið öruggur í umhverfinu. Að maður geti mætt á æfingu og þurfi ekki að vera hræddur. Ég sé fyrir mér að barnabörnin mín eða jafnvel dóttir mín geti séð fram á bjartari tíma og að þetta sé byrjunin á því,“ segir hún.

Segir margt hafa komið á óvart

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að sér hafi fundið það mikilvægt í kjölfar #metoo-yfirlýsinganna að viðeigandi aðilum yrði komið saman sem fyrst.

„Það var mikilvægast að setja saman alla lykilaðila. Ég hafði samband við forseta ÍSÍ þetta sama kvöld og við höfðum svo samband við UMFÍ og settum alla saman. Verkefnahópurinn fékk svo það hlutverk að spyrja bara hver er staðan, hvað þarf að bæta og svo fékk ég það í hendurnar fljótlega og er mjög sátt með þá vinnu sem þau eru búin að vinna,“ segir hún.

„Ég hugsaði bara að við þyrftum skýrar línur í þessu og sumar af þessum tillögum hafa ekki komið mér á óvart eins og til að mynda að það þyrfti að vera óháður aðili sem er hægt að leita til og sem leiðbeinir í erfiðum aðstæðum. Ég held að þetta sé svona týpískt umbótamál.“

Lilja sagði á blaðamannafundi í dag að #metoo-byltingin hefði ekki farið fram hjá neinum og að hún hafi ákveðið eftir að hafa heyrt frásagnir Hafdísar og fleiri íþróttakvenna að það væri mikilvægt að ná utan um málið sem fyrst innan ráðuneytisins.  

„Margt sem hefur komið fram kom mér á óvart, sumt ekki. Ég veit bara að það er mjög mikilvægt að allir ferlar og slíkt sé með mjög skýrum hætti,“ segir hún.

Lilja kynnti tillögurnar fyrir ríkisstjórninni í morgun við góðar undirtektir. Hún segir frumvarp byggt á tillögunni um óháðan aðila vera í vinnslu innan ráðuneytisins og gerir ráð fyrir því að það komi fram í haust. 

Aðspurð segist hún vona að eining verði innan Alþingis um málið.

„Maður veit það aldrei. En við munum vanda þannig til verks að ég geri ráð fyrir því að það verði hægt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert