Sést á öryggismyndavélum

Átta bílar voru skemmdir á stæðinu við Öskju. Sumir þeirra …
Átta bílar voru skemmdir á stæðinu við Öskju. Sumir þeirra komast augljóslega ekki aftur á götuna. mbl.is/​Hari

Atburðurinn þegar kveikt var í bílum á verkstæðisstæði bílaumboðsins Öskju í fyrrinótt sést á upptökum úr öryggismyndavélum fyrirtækisins sem afhentar hafa verið lögreglu. Skemmdir urðu á átta bifreiðum.

Ekki var búið að meta tjónið síðdegis í gær en áætlað má að það geti verið á bilinu 30 til 50 milljónir króna.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinnur að rannsókn málsins. Í gær var unnið á vettvangi auk þess sem upptökur úr öryggismyndavélum voru skoðaðar og unnið var úr vísbendingum sem lögreglu hafa borist.

Virðist svo sem kveikt hafi verið í tveimur bifreiðum og eldurinn síðan borist í sex aðrar bifreiðar á stæðinu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Helga Friðriksdóttir, forstöðumaður þjónustusviðs Öskju, sagði síðdegis í gær að bílar Öskju séu tryggðir. Ekki er vitað um tryggingar fjögurra bíla sem eru í eigu viðskiptavina. Helga staðfestir að atburðurinn þegar kveikt var í komi fram á upptökum öryggismyndavéla sem afhentar hafa verið lögreglu. Þar sést að kveikt var í bílunum um klukkan 5 í gærmorgun. Hún vill ekki fara út í það hvort fleiri en einn hafi verið að verki, vísar á lögreglu með það. Dimmt var og ekki víst að hægt sé að þekkja brunavarginn eða vargana á upptökunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert