Sóttu þýfið sjálf í kjallarageymslu

Berglind og bandaríska konan gátu rakið símann í blokk í …
Berglind og bandaríska konan gátu rakið símann í blokk í Breiðholti. Sigurður Bogi Sævarsson

Berglind Haðardóttir Diego tók í fyrradag lögin í eigin hendur og sótti stolinn bakpoka í geymslurými í blokk í Breiðholti. Hún hafði þá með staðsetningarforriti rakið síma sem var í bakpokanum í hús skammt frá eigin húsi, og kom sér inn í bygginguna þar sem hún fann bakpokann sem hún leitaði, ásamt fleiri bakpokum, sem hún veit þó ekki hvort einnig hafi verið þýfi.

Berglind greindi frá því á Facebook-síðunni Íbúasamtökin betra Breiðholt í fyrradag að kona sem hún þekkti hefði lent í því að bakpoka hennar var stolið þegar hún var í miðbæ Reykjavíkur. Í bakpokanum hafi verið sími konunnar sem hún gat rakið með staðsetningarforriti í símanum.

Konan sem um ræðir er bandarískur ferðamaður en ráðfærði sig við vini sína frá Indlandi, sem búsettir eru hér á landi, sem ráðlögðu henni að tilkynna stuldinn til lögreglu. Segir Berglind að konan hafi gert það en fengið þau svör frá lögreglu að hún gæti lítið gert sem væri. Konan hafi hins vegar verið á leiðinni í flug úr landi og því þurft að hafa hraðar hendur ætlaði hún að fá bakpokann aftur fyrir brottför.

Dreifðu sér á hæðir blokkarinnar

Konan hafði þá rakið símann í hús í Breiðholti og því hafi Berglind komið inn í málið, þar sem hún er búsett í Breiðholti og er vinur indverska fólksins. Eftir að hafa komist að því í hvaða blokk síminn var staðsettur birti Berglind áðurnefnda Facebook-færslu þar sem hún biðlaði til þess sem málið varðaði að skila símanum. Engin viðbrögð hafi borist og því hafi hún, með hjálp barna sinna og vina þeirra, ákveðið að taka málið í eigin hendur og reyna að finna símann.

„Það er maður þarna að koma úr búð og við segjum honum bara hvað er í gangi. Hann hleypir okkur inn. Við dreifum okkur á hæðirnar og [konan] spilar „lost mode“,“ segir Berglind en bandaríska konan gat spilað hringitón með staðsetningarforriti símans. Það hafi leitt í ljós að bakpoki konunnar, sem innihélt bæði síma og tölvu hennar, væri í geymslurými í kjallara blokkarinnar. Segir Berglind þar hafa verið nokkra fleiri bakpoka. 

„Við vitum náttúrulega ekkert hvort þetta var þýfi eða ekki en ég hringdi á lögregluna og lét vita. Þá hafði lögreglan allt í einu rosalega mikinn áhuga á að kíkja á staðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert