Sýkingar minnka um 72%

Sigurður Ólafsson og Magnús Gottfreðsson eru ánægðir með þann árangur …
Sigurður Ólafsson og Magnús Gottfreðsson eru ánægðir með þann árangur sem hefur náðst í baráttunni gegn lifrarbólgu C. Þeir telja að Ísland eigi raunhæfan möguleika á að ná takmarki WHO, fyrst þjóða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tölurnar sem voru kynntar í dag sýna ótvírætt að meðal þeirra sem neyta fíkniefna í æð hefur algengi sýkingarinnar lækkað verulega á undanförnum tveimur árum. Það er lækkun um 72%, sem er meira en við gátum gert okkur vonir um á svo skömmum tíma,“ segir Magnús Gottfreðsson, prófessor í læknisfræði við Háskóla Íslands.

Lifrarbólga C er til umræðu á ársfundi norrænna smitsjúkdómalækna og sýklafræðinga sem hér er haldinn. Magnús segir að tölurnar gefi vísbendingar um mögulegan árangur átaksverkefnis sem hér hefur verið unnið að frá árinu 2016.

Sigurður Ólafsson, meltingarlæknir og ábyrgðarmaður átaksins, segir að á þessu og síðasta ári hafi um 700 einstaklingar verið meðhöndlaðir og með því náðst til um 90% þeirra sem eru smitaðir.

Sigurður bendir á að Ísland sé leiðandi í lækningum á lifrarbólgu C á heimsvísu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin stefnir að því að útrýma lifrarbólgu C sem meiriháttar heilbrigðisvá fyrir 2030. Vonir standa til þess að Íslendingar nái því takmarki 10 árum fyrr. „Við höfum möguleika á því, eins og málin standa núna, að verða fyrst þjóða til að ná þessu takmarki,“ segir Sigurður í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert