Til Íslands á sæþotu frá Færeyjum

Þýski ævintýramaðurinn á sæþotunni.
Þýski ævintýramaðurinn á sæþotunni. Ljósmynd/Stefán Guðmundsson

„Þetta er hrikalega flott. Þetta er þrautreyndur sæúlfur á sæþotu sem fer yfir mjög erfitt hafsvæði,“ segir Stefán Guðmundsson, eigandi og framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Gentle Giants frá Húsavík, um þýskan ævintýramann sem hann rakst á í hvalaskoðun um helgina.

Maðurinn hafði komið inn á Skjálfanda frá Færeyjum eftir þrettán klukkutíma ferðalag á sæþotu.

Þetta hafsvæði er ekkert grín 

Þotan er 180 hestöfl og eru eldsneytisbirgðir hennar 350 lítrar. Að sögn Stefáns hafði maðurinn lent í þó nokkrum átökum á farartækinu á leiðinni upp að landinu og fyrir Langanes og var hann orðinn bensínlítill. Engin hætta var þó á ferðinni.

„Við vorum þarna á hvalaslóð og vorum að skoða hvali. Þá renndi hann bara til okkar og spjallaði. Mér fannst mjög gaman að sjá þetta og hversu vel hann var útbúinn, með allar þessar auka eldsneytisbirgðir, sérsmíðaða tanka og allt eins og best verður á kosið. Svo heilsaði hann upp á hvalina sjálfur,“ greinir Stefán frá en hann hefur sjálfur töluverða reynslu af sæþotusiglingum bæði hér heima sem erlendis.

„Það er ekkert grín að fara yfir þetta hafsvæði í einhverjum kaldaskít á svona græju,“ segir hann og getur ekki annað en hrósað Þjóðverjanum knáa.

Ljósmynd/Stefán Guðmundsson

Gjörþekkir verkfærið

Sá þýski ætlaði að halda áfram vestur og stefndi á hringferð um landið eftir að hafa hvílt sig á Húsavík.

„Þetta er alvörumaður, greinilega þaulvanur,“ bætir Stefán við og segir Þjóðverjann hafa ferðast mikið í Skandinavíu á sæþotunni og einnig í Eystrasaltinu, auk þess sem hann hefur tekið þátt í keppnum.

Hann vill ekki meina að um hættuför sé að ræða. „Þetta er ekkert hættulegra en hvað annað ef menn eru vel búnir og með eitthvað í kollinum, þá geta menn farið nánast hvað sem er. Hann var alveg öruggur og gjörþekkir verkfærið sem hann er með í höndunum. Það kom mér reyndar á óvart að hann væri einn á ferð.“ 

Ljósmynd/Stefán Guðmundsson

„Það lengsta og svalasta“

Spurður hvort hann hafi séð annað eins kveðst Stefán ekki muna eftir neinum sem hafi farið jafnlanga vegalengd. Þetta sé algjörlega einstakt. 

„Menn hafa verið að ferðast mikið á þessu í gegnum tíðina og þá aðallega kannski í Evrópu en við höfum ekki séð menn koma hér og verið á hringferðum. Þetta er það lengsta og svalasta sem ég hef orðið vitni að,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert