Sólarglennur syðra

mbl.is/Valgarður Gíslason

Hæg norðlæg átt næstu daga og skýjað um norðanvert landið með vætu annað slagið, en sólarglennur syðra og stöku skúrir. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast sunnanlands, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Á laugardag skiptir aðeins um gír þar sem snýst í frekar hæga suðaustlæga átt með skýjuðu veðri um sunnanvert landið, jafnvel dálítilli vætu, en þurrt annars staðar. 
Eftir það eru austlægar áttir og rigning í kortunum með heldur kólnandi veðri.

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðlæg átt 3-8 m/s og skýjað fyrir norðan með skúrum eða súld, en bjart með köflum sunnan heiða og stöku skúrir, einkum síðdegis. Hiti 8 til 15 stig yfir daginn, mildast sunnanlands.

Á fimmtudag og föstudag:
Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og víða skúrir, en sums staðar þokusúld við norðurströndina. Hiti 7 til 14 stig að deginum, hlýjast syðst. 

Á laugardag:
Hæg suðaustlæg eða breytileg átt og skýjað, en dálítil væta með suðurströndinni. Þurrt að kalla annars staðar. Hiti 7 til 13 stig. 

Á sunnudag og mánudag:
Austan- og suðaustanátt og rigning með köflum, en úrkomulítið norðanlands. Hiti 6 til 12 stig. 

Á þriðjudag:
Útlit fyrir stífa norðaustanátt og rigningu, en úrkomulítið um landið vestanvert. Hiti breytist lítið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert