Enginn sett sig í samband við Áslaugu

Orka náttúrunnar er dótturfyrirtæki Orkuveitunnar.
Orka náttúrunnar er dótturfyrirtæki Orkuveitunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum fundið fyrir gríðarlegum stuðningi frá vinum og vandamönnum, og meira að segja fólki sem við þekkjum ekki neitt. Okkur þykir vænt um það og erum þakklát fyrir það, en það hefur enginn haft samband við Áslaugu sem einhverja ábyrgð ber á þessu máli,“ segir Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, í samtali við mbl.is, en ekki náðist í Áslaugu Thelmu við vinnslu fréttarinnar. 

Henni var sagt upp störfum hjá Orku náttúrunnar í síðustu viku. Í kjölfar uppsagnarinnar fór af stað atburðarás sem segja má að leitt hafi í ljós ýmsa annmarka á stjórnarháttum hjá Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfyrirtæki Orku náttúrunnar, og hefur Bjarni Bjarnason forstjóri óskað eftir því að stíga til hliðar á meðan úttekt verður gerð á vinnustaðarmenningunni.

Á Facebook-síðu sinni greindi Áslaug Thelma frá því í gær að hún ætlaði að leita réttar síns vegna uppsagnarinnar. Hún sagði engin málefnaleg rök hafi legið til grundvallar uppsögninni og að enginn hjá OR eða ON hefði haft samband við hana, þrátt fyrir að nú lægi ljóst fyrir að svo hafi verið. Samkvæmt Einari hefur enn enginn haft samband sem ber ábyrgð á þessum gjörningi gagnvart Áslaugu.

Stjórn OR kemur saman á fundi á morgun til að ræða beiðni forstjóra um að fá að stíga tímabundið til hliðar. Ekki hefur náðst í Brynhildi Davíðsdóttur stjórnarformann í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert