Líklega bara toppurinn á ísjakanum

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, fulltrúi stjórnar FKA í aðgerðarhópnum og málefnum …
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, fulltrúi stjórnar FKA í aðgerðarhópnum og málefnum sem tengjast #MeToo. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Ég skynja mjög mikinn kraft í atvinnulífinu en ég held því miður að þetta geti verið bara toppurinn á ísjakanum,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, stjórnarkona FKA, félags kvenna í atvinnulífinu.

FKA sendi frá sér yfirlýsingu í gær vegna upp­sagnar Áslaug­ar Thelmu Ein­ars­dótt­ur úr starfi sínu hjá Orku nátt­úr­unn­ar (ON). Stjórn FKA fjallaði um málið á fundi í gær og lýs­ti yfir vanþókn­un á því hvernig hef­ur verið staðið að mál­inu inn­an Orku­veitu Reykja­vík­ur, móður­fyr­ir­tæk­is ON.

Stjórn Orku nátt­úr­unn­ar, dótt­ur­fé­lags OR, ákvað á miðviku­dag að segja Bjarna Má Júlí­us­syni, fram­kvæmda­stjóra fé­lags­ins, upp störf­um vegna óviðeig­andi fram­komu gagn­vart starfs­fólki.

Skömmu eftir yfirlýsingu FKA barst tilkynning frá Bjarna Bjarnasyni, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem hann óskar eftir því að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri á meðan úttekt innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á málum og vinnustaðamenningu Orkuveitu Reykjavíkur fer fram.  

Virðing á vinnustaðnum komist í lag

FKA skoraði á stjórn Orku­veitu Reykja­vík­ur að rann­saka aðkomu for­stjóra OR að máli Áslaug­ar Thelmu og fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra ON til hlít­ar. Hulda Ragnheiður segir að FKA hafi ekki gert kröfu um afsögn forstjóra OR.

„Okkar hugmyndir snúast fyrst og fremst um það að það sé gerð úttekt á vinnustaðamenningunni og okkur er fyrst og fremst umhugað um þær konur sem eru á vinnustaðnum. Það sem er mikilvægast er að líðan fólks á vinnustaðnum og virðingin sem  borin er fyrir fólkinu komist í lag,“ segir Hulda Ragnheiður.

FKA leggur áherslu á að sá sem fari með rannsókn málsins njóti trausts. „Þetta eru mjög viðkvæm mál sem fjallað er um og það þarf að vera einhver sem getur gætt algjörs hlutleysis og á ekkert undir þeim niðurstöðum sem koma til með að verða úr því. Einstaklingar sem starfa hjá sama eiganda eru því kannski orðnir í vafasamri stöðu hvað hlutleysi varðar. Það mega engir hagsmunir liggja undir hjá þeim sem fer í að greina málið,“ segir Hulda Ragnheiður.

Bryn­hild­ur Davíðsdótt­ir, formaður stjórn­ar OR, til­kynnti í gær­kvöldi að und­ir­bún­ing­ur að rann­sókn innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar á um­rædd­um mál­efn­um OR væri þegar haf­inn. Hild­ur Björns­dótt­ir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, hefur bent á mögulega hagsmunaárekstra þar sem að Reykja­vík­ur­borg á meiri­hlut­ann í Orku­veit­unni.

Stjórn FKA fjallaði um upp­sögn Áslaug­ar Thelmu Ein­ars­dótt­ur úr starfi …
Stjórn FKA fjallaði um upp­sögn Áslaug­ar Thelmu Ein­ars­dótt­ur úr starfi sínu hjá ON á fundi í gær og lýsir yfir vanþóknun á því hvernig hefur verið staðið að málinu innan Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfyrirtækis ON. Ljósmynd/FKA

Þekkt dæmi um sviðsettar uppsagnir

Hulda Ragnheiður segist eiga von á mjög miklum breytingum í atvinnulífinu á næstu einu til tveimur árum og að mál Áslaugar Thelmu veiti konum óneitanlega kjark til að stíga fram.

„Það er þannig að þegar farið er að hreyfa við svona málum þá þora konur frekar að stíga fram. Það hafa konur haft samband við mig persónulega og fleiri konur innan stjórnar sem ég veit um, einmitt vegna þess að þær fá kjark þegar þær sjá hlutina ná einhverri hreyfingu til þess að tjá sig um málið.“

Hulda Ragnheiður segir vita um margar konur, sérstaklega konur í stjórnunarstöðum, sem hafa hingað til ekki þorað, stöðu sinnar vegna, að bera upp kvartanir  vegna óviðeigandi hegðunar á vinnustað. Þá segist hún vita um dæmi þar sem uppsagnir eru sviðsettar í kjölfar þess tilkynninga um óviðeigandi hegðun starfsmanna. „Það sem að ég held að gerist núna er að það kemur upp á yfirborðið það sem hefur verið þaggað,“ segir hún.

FKA hefur lýst yfir stuðningi við Áslaugu Thelmu. „Við beitum okkur alltaf þegar við þurfum að beita okkur og í gær var okkur nóg boðið. Sú staða getur komið upp á hverjum degi. Við bregðumst við þegar á þarf að halda,“ segir Hulda Ragnheiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert