Sérfræðilæknir lagði ríkið

Sjúkratryggingar Íslands.
Sjúkratryggingar Íslands. mbl.is/Hjörtur

Íslenska ríkið tapaði í dag máli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem sérfræðilæknirinn Alma Gunnarsdóttir höfðaði vegna ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands um að synja henni um aðild að rammasamningi. Var ákvörðun Sjúkratrygginga felld úr gildi og var ríkinu gert að greiða Önnu 1,8 milljónir í málskostnað.

Alma er sérfræðilæknir á sviði háls-, nef- og eyrnalækninga og lauk hún námi árið 2014. Starfaði hún í Svíþjóð í þrjú ár eftir að hún lauk námi, en flutti svo heim árið 2017. Sótti hún um aðild að rammasamningnum með umsókn til Sjúkratrygginga Íslands í júlí það sama ár. Fékk hún svar í september um að Sjúkratryggingar hefðu ákveðið að hafna umsókn hennar. Var vísað til bréfs frá velferðarráðuneytinu það sama ár þar sem því var beint til Sjúkratrygginga að taka ekki nýja sérgreinalækna inn á rammasamning.

Í kröfu sinni segir Alma meðal annars að um hafi verið að ræða ólögmæta stjórnvaldsákvörðun þar sem hún hafi átt rétt til aðildar að rammasamningnum samkvæmt 2. grein samningsins. Þá byggi ákvörðun Sjúkratrygginga ekki á faglegu efnislegu mati eins og gert sé ráð fyrir heldur sé farið eftir almennum fyrirmælum heilbrigðisráðherra. Taldi Alma að slík fyrirmæli ættu sér ekki stoð í lögum né í rammasamningnum.

Ríkið bendir hins vegar á að lækniskostnaður utan sjúkrahúsa hafi árið 2017 verið kominn langt fram úr áætlun og að sérfræðilæknar eigi ekki einhliða rétt til aðildar að rammasamningnum.

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að almenn fyrirmæli ráðherra eigi sér stoð í lögum og rammasamningi. Hins vegar hafi ekkert faglegt mat farið fram við ákvörðunarferlið þótt rammasamningurinn sé enn í gildi.

„Leiddi þetta til þess að ekki fór fram full­nægjandi mat á umsókn hennar með tilliti til þeirra fjölmörgu faglegu þátta sem skiptu máli við úrlausn á umsókninni eins og áður greinir. Með þessu var brotið gegn lög­mætisreglunni og megin­reglu stjórn­sýslu­réttar um skyldu­bundið mat stjórn­valda. Af þessu leiðir að sú ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands 8. september 2017, sem reist var á fyrir­mælum velferðar­ráðuneytisins, fyrir hönd heil­brigðisráðherra, 26. apríl 2017, sbr. bréf ráðuneytisins 28. ágúst sama ár, að synja stefnanda um aðild að ramma­­samningnum samkvæmt umsókn hennar 14. júlí sama ár, er haldin veru­­leg­um ann­mörkum svo leiðir til ógildingar ákvörðunarinnar. Þegar að þessu virtu verður fallist á kröfu stefnanda um að fella úr gildi um­rædda ákvörðun,“ segir í niðurstöðu dómsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert