Sigmundur spyr um ráðgjafastörf

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til allra ráðherra ríkisstjórnarinnar þar sem þeir eru inntir svara vegna starfa sérfræðinga og annarra ráðgjafa á vegum ráðuneyta þeirra.

„Hefur ráðherra fengið til starfa, tímabundið eða á grundvelli verksamnings, sérfræðinga eða aðra aðila til að veita ráðgjöf, sinna sérverkefnum eða verkefnastjórnun í einstökum verkefnum frá því að núverandi ríkisstjórn tók til starfa? Ef svo er, hvaða aðilar eru það, hverjar hafa greiðslur til þeirra verið og hver er lýsing á verkefnum þeirra?“

Tilefnið er umræða um fjölda aðstoðarmanna ráðherra ríkisstjórnarinnar og aukinn kostnað vegna þeirra samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kom til umræðu á Alþingi þegar fyrsta umræða um frumvarpið fór fram fyrir helgi. Fram kemur í frumvarpinu að leyfilegum hámarksfjölda aðstoðarmanna ráðherra hafi nú verið náð.

Sigmundur gerði málið að umtalsefni á Facebook-síðu sinni á föstudaginn vegna þess að rifjuð var upp frétt frá árinu 2014 þar sem fullyrt er að Sigmundur hafi sjálfur haft sjö aðstoðarmenn. Þar voru taldir með upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, ráðgjafar og verkefnastjórar.

„Í fréttinni á sínum tíma voru allir frá upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar að verkefnisstjórum kallaðir aðstoðarmenn ráðherra. Forvitnilegt væri að sjá samantekt á fjölda aðstoðarmanna ef sama skilgreining væri notuð fyrir núverandi ráðherra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert