Vilja tryggja trúverðugleika úttektarinnar

Þrennt er á dagskrá stjórnarfundar OR á morgun.
Þrennt er á dagskrá stjórnarfundar OR á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mál Áslaugar verður að sjálfsögðu skoðað sem hluti þessarar úttektar, og það verður skoðað frá öllum hliðum,“ segir Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Uppsögn Áslaugar Thelmu Einarsdóttur hjá Orku náttúrunnar, dótturfyrirtækis OR, hrinti af stað atburðarás sem leiddi til uppsagnar framkvæmdastjóra ON og í kjölfar þess óskar forstjóra OR um að stíga tímabundið til hliðar.

Beiðni Bjarna Bjarnasonar, forstjóra OR, verður tekin fyrir á stjórnarfundi OR á morgun. Þar verður einnig á dagskrá möguleg tillaga um staðgengil fyrir Bjarna, sem og afstaða til úttektar á málinu. „Við munum þá formlega fara fram á úttekt á málinu. Hingað til hafa þetta einungis verið óformlegar þreifingar, en við munum formgera úttektina og gefa út beiðni á fundi okkar á morgun,“ segir Brynhildur.

„Við þurfum að vanda okkur“

Aðspurð hvort henni þyki innri endurskoðun Reykjavíkurborgar á málefnum OR nægilega hlutlaus segir Brynhildur: „Ef utanaðkomandi eða óháður aðili kemur að úttektinni, og ef slík aðkoma eykur trúverðugleika, þá auðvitað skoðum við það. Við viljum tryggja trúverðugleika úttektarinnar og er mjög umhugað um það. Við þurfum að vanda okkur.“

Mbl.is hafði það eftir Einari Bárðarsyni, eiginmanni Áslaugar Thelmu, fyrr í kvöld að enginn sem ábyrgð bæri í tengslum við uppsögn hennar hefði sett sig í samband við hana. Brynhildur segir að mál Áslaugar verði skoðað sem hluti úttektarinnar.

Hún segir stjórn OR ekki hafa vitað af kvörtunum á hendur Bjarna Má Júlíussyni, enda hafi hann verið framkvæmdastjóri dótturfyrirtækis OR. „Við förum ekki með starfsmannamál í neinu af dótturfyrirtækjunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert