Vill ekki svarta kassa í miðborgina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, fyrir miðju ásamt fleiri þingmönnum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, fyrir miðju ásamt fleiri þingmönnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hægt er að endurskoða þessi áform með þeim hætti að þau verði til þess fallin að bæta ásýnd Alþingis og miðbæjarins um leið,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag þar sem hann gagnrýndi ýmsar byggingaframkvæmdir í miðborg Reykjavíkur sem væru lýti á henni.

„Hér rétt utan við húsið er verið að byggja risastórt hótel, nánast upp að þinginu og er óskiljanlegt að þingið skuli láta þetta viðgangast. Á næsta horni er verið að byggja yfir minjar um hugsanlega landnámið, einhvern elsta skála sem hefur fundist á Íslandi og á enn einu horninu hér bara í Kvosinni er verið að byggja gríðarleg ferlíki, stóra svarta kassa sem gera nú ósköp lítið til þess að bæta ásýnd miðbæjarins í Reykjavík.“

Sigmundur sagði mikilvægt að Alþingi reyndi að nota þær leiðir sem stofnunin hefði til þess að sporna við þessari þróun og tæki ekki þátt í henni. „Því vil ég hvetja Alþingi, og treysti því að hæstvirtur forseti muni aðstoða mig við að koma þeim skilaboðum áleiðis, til þess að endurskoða áform um byggingu nokkurra stórra svartra kassa undir starfsemi þingsins, hér á horninu fyrir utan gluggann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert