Valdið ekki hjá borginni

Tvær herflug­vél­ar fluttu ráðherra og þing­menn á flug­móður­skipið USS Harry …
Tvær herflug­vél­ar fluttu ráðherra og þing­menn á flug­móður­skipið USS Harry S. Trum­an í gær. Mynd úr safni. AFP

Hvorki borgarstjóri né fulltrúar hans hafa haft samband við utanríkisráðuneytið vegna flugs utanríkisráðherra og þingmanna í utanríkismálanefnd frá Reykjavíkurflugvelli um borð í flugmóðurskipið USS  Harry S. Truman í gær. Þetta kemur fram í svörum utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri sagði í gær ljóst að sam­komu­lag rík­is og borg­ar frá 2013, þar sem kveðið var á um að allri um­ferð herflug­véla og flugi í þágu hertengdr­ar starf­semi skyldi hætt, hafi verið brotið þegar flogið var með ut­an­rík­is­ráðherra og nokkra þing­menn í ut­an­rík­is­mála­nefnd um borð í flug­móður­skipið.

Spurningunni hvort utanríkisráðuneytinu hafi verið kunnugt um samkomulagið er samþykkt var að fljúga frá flugvellinum svarar ráðuneytið því til að samkvæmt loftferðalögum veiti utanríkisráðherra erlendum ríkisförum, þ.á m. herflugvélum, heimildir til yfirflugs og lendinga á Íslandi. „Tilkynnt var um ferðir vélanna til Isavia, embættis tollstjóra, ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar. Öllum lagaskilyrðum fyrir viðkomu þessara flugvéla var því fullnægt,“ segir í svarinu.

Víkur ekki lögmæltum heimildum ráðherra til hliðar

„Þótt utanríkisráðuneytið hafi um áratugaskeið átt mjög farsæl samskipti og samstarf við sveitarfélög víða um land vegna varnarmála, og hyggst áfram eiga, þá breytir það ekki því að þau hafa ekki slíkar valdheimildir hvað varðar öryggis- og varnarmál.“

Því geti umræddur gjörningur milli innanríkisráðuneytis og Reykjavíkurborgar frá 2013 „ekki vikið til hliðar lögmæltum heimildum utanríkisráðherra til að gefa út yfirflugs- og lendingarleyfi til erlendra ríkisloftfara.“

Þá segir í svarinu að eins og sakir standa séu ekki fleiri slíkar ferðir fyrirhugaðar frá Reykjavíkurflugvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert