Leigubílstjórinn vildi ekki greiðslu frá hetju Vals

Feðgarnir Sigurður Dagsson knattspyrnukappi og Dagur Sigurðsson handboltakappi hafa margs …
Feðgarnir Sigurður Dagsson knattspyrnukappi og Dagur Sigurðsson handboltakappi hafa margs að minnast. mbl.is/​Hari

Eusébio da Silva Ferreira var útnefndur knattspyrnumaður ársins í Evrópu 1965, var markakóngur á heimsmeistaramótinu í fótbolta 1966 og fékk gullskóinn 1968 fyrir að vera markakóngur Evrópu. Hann náði samt ekki, frekar en samherjar hans í portúgalska liðinu Benfica, að skora á móti Val í Evrópukeppni meistaraliða að viðstöddum 18.243 skráðum áhorfendum á Laugardalsvelli fyrir um 50 árum, nánar tiltekið 18. september 1968.

Sigurður Dagsson í marki Vals var ein helsta hindrunin sem Portúgalarnir réðu ekki við. „Þetta var sannarlega erfiður leikur,“ sagði hann við Morgunblaðið eftir leik. „Annars átti ég von á því að þeir hittu betur, en skotin voru föst og snögg. Ég reiknaði með að þurfa að sækja boltann oft í netið í þessum leik, jafnvel 5-8 sinnum.“

Hálfri öld síðar eru leikirnir við Benfica enn ofarlega í minni. Fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli en Benfica vann síðan 8:1 í Lissabon. „Þetta var ótrúlega gaman,“ segir Sigurður. „Við stóðum okkur skrambi vel hérna heima og ótrúlega vel úti líka, þó að mörkin hafi verið mörg.“

Mikil spenna

Sigurður segir að mikil tilhlökkun hafi ríkt vegna fyrri leiksins. Mönnum hafi vissulega brugðið þegar Eusébio, einn frægasti leikmaður heims á þessum tíma, var ekki í leikmannahópnum, en síðar hafi komið í ljós að hann hafi þurft að taka á móti gullskónum og því komið síðar. „Leikirnir eru ógleymanlegir og segja má að fyrri leikurinn standi upp úr á ferlinum,“ segir hann.

Óli B. Jónsson var þjálfari Vals á þessum tíma. Hann lagði upp með leikaðferðina 5-2-3 og lét Pál Ragnarsson elta Eusébio um allan völl. Eftir leikinn sagði hann að leikskipulagið hefði gengið upp. Sigurður tekur í sama streng. „Palli afgreiddi Eusébio og við sáum um rest.“ Hann gerir lítið úr markvörslunni en hrósar samherjunum. „Við vorum hræddir við þá en skipulagið gekk upp og strákarnir héldu baráttuandanum á lofti.“

Eftir leik var móttaka á Loftleiðahótelinu. Sigurður segir að þess vegna hafi menn flýtt sér í búningsklefanum og ekki gefið sér tíma til að hugsa um árangurinn. „Við vildum mæta tímanlega í veisluna til þess að fá sem mest út úr partíinu.“

Sigurður segir að jafnteflinu hafi strax verið vel tekið utan vallar. Hann rifjar upp að þegar hann hafi ætlað að borga fyrir leigubílinn út á Loftleiðahótelið hafi bílstjórinn sagt: „Heyrðu Sigurður. Ég tek ekki fyrir þetta.“ „Úrslitin þóttu það merkileg.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert